Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður og formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs:
Óhætt er að segja að öll alþjóðasamskipti hafi tekið stakkaskiptum á síðustu sex mánuðum. Stríðið í Úkraínu hefur breytt afstöðu þjóða og þjappað saman þeim þjóðum sem standa fyrir lýðræði og mannréttindi. Litið er svo á að stríðið, sem Rússar heyja nú gegn Úkraínumönnum, sé stríð gegn sjálfstæði, friði og mannréttindum. Stríð gegn gildum okkar og þeim gildum sem okkar helstu samstafsríki virða.
Samstarf Norðurlandanna hefur litast af stríðinu. Norðurlöndin öll og Norðurlandaráð hafa stigið ákveðið til jarðar, fordæmt innrásina og reynt að leggja sitt af mörkum til að styðja við Úkraínu. Viðhorf Norðurlanda til varnar- og öryggismála hefur líka breyst. Finnar og Svíar hafa sótt um inngöngu í varnarbandalagið NATÓ sem við hin norrænu ríkin styðjum heils hugar. Umræða um að efla samstarf Norðurlanda í öryggis- og varnarmálum hefur aukist mikið og er það gott. Enda ljóst að Ísland hefur mikla hagsmuni af öflugu og góðu samstarfi Norðurlanda.
Norðurlandaráð hefur gagnrýnt innrásina harðlega og lokað á öll samskipti við Rússland. Hefð var fyrir því að rússneskir þingmenn heimsæktu eitt þjóðþing Norðurlandanna ár hvert. Þannig var komið að okkur Íslendingum að taka á móti Rússum síðasta vetur en það var ekki erfið ákvörðun hjá þverpólitískri Íslandsdeild Norðurlandaráðs að af því gæti ekki orðið við þessar aðstæður.
Íslandsdeild Norðurlandaráðs fór þá að velta upp hugmyndum um það hvernig við gætum tengst úkraínska þinginu og stjórnarandstöðunni í Rússlandi.
Norðurlandaráð hefur um árabil átt gott samstarf við Eystrasaltsríkin og þing þeirra. Eystrasaltsríkin hafa tekið mjög harða afstöðu gegn rússneskum stjórnvöldum og með Úkraínu, enda vita þau sem er að sjálfstæði þeirra er ógnað með innrásinni. Áður hafa Eystrasaltslöndin, og þá sérstaklega Litháen, stutt við stjórnarandstöðuna í Hvíta-Rússlandi eða eigum við að segja réttkjörinn forseta Hvíta-Rússlands, Svetlönu Tsíkanovskaju.
Þessi stuðningur þeirra ber merki um mikið hugrekki og sjálfstæðisvilja. Þau segja skýrt að nú standi þau vaktina með nágrönnum sínum, vaktina sem við stóðum með þeim á sínum tíma þegar við urðum fyrst ríkja til að viðurkenna þeirra sjálfstæði.
Áhugaverðir gestir á haustfund Norðurlandaráðs
Fram undan er haustfundur Norðurlandaráðs hér á Íslandi og við höfum boðið til hans góðum gestum. Annars vegar stendur til að funda með fulltrúum Eystrasaltsríkjanna og hins vegar höfum við boðið til fundarins úkraínsku þingkonunni Lesíu Vasylenkó. Lesía hefur verið virk á Twitter og lýst ótrúlegum styrk og baráttu úkraínsku þjóðarinnar og samstöðu þingmanna, hvar í flokki sem þeir standa.
Jevgenía Kara-Murza frá Free Russia stofnuninni sem berst fyrir lýðræðisumbótum í Rússlandi er einnig gestur okkar. Eiginmaður Köru-Murzu er þekktur fyrrverandi rússneskur stjórnarandstæðingur sem nú situr í fangelsi í Rússlandi fyrir að tala um stríðið í Úkraínu.
Þá kemur Franak Viacorka sem er aðalráðgjafi Svetlönu Tsíkanovskaju sem leiðir stjórnarandstöðu Hvíta-Rússlands með aðsetur í Litháen. En mikilvægt er að gleyma ekki stöðunni sem þar er uppi, enda ljóst að Pútín reiðir sig á Alexander Lúkasjenkó sem oft hefur verið nefndur síðasti einræðisherrann í Evrópu.
Allir eiga þessir gestir það sameiginlegt að tala fyrir lýðræði og mannréttindum, grunngildum Norðurlandaráðs. Það fer því vel á því að fá þessa góðu gesti til fundar við okkur nú vegna þess að þessar raddir þurfa að heyrast.
Við, sem teljum okkur búa við frið og öryggi, þurfum að hlusta á þessar raddir og taka áfram afgerandi afstöðu með lýðræði og mannréttindum og tala fyrir friði.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. september 2022.