Samofnir þræðir í þrjátíu ár
'}}

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra:

Það var bæði hátíðleg og til­finn­ingaþrung­in stund í Höfða 26. ág­úst 1991 þegar Ísland viður­kenndi með form­leg­um hætti sjálf­stæði Eystra­salts­ríkj­anna og tók um leið upp stjórn­mála­sam­band við þau, fyrst allra ríkja. Í dag taka for­set­ar og ut­an­rík­is­ráðherr­ar Íslands og Eist­lands, Lett­lands og Litáens þátt í at­höfn í þessu sama húsi til að minn­ast þess­ara merku tíma­móta.

At­höfn­in í Höfða fyr­ir rúm­um þrem­ur ára­tug­um var sann­ar­lega sögu­leg­ur viðburður. Það er óhætt að líta með stolti til þess að í sjálf­stæðis- og frels­is­bar­áttu þess­ara ríkja var Ísland þess megn­ugt að leggja þungt lóð á vog­ar­skál­ar rétts málstaðar. Sá stuðning­ur sem Ísland veitti á þess­ari ög­ur­stundu er ennþá mik­ils met­inn í Eystra­salts­ríkj­un­um. Það get ég vottað eft­ir að hafa heim­sótt Lit­há­en fyrr á þessu ári og upp­lifað þá vænt­umþykju og virðingu sem rík­ir í garð Íslands vegna fram­lags okk­ar til sjálf­stæðis þess.

Sam­hljóm­ur í áhersl­um og af­stöðu

Leiðir Íslands liggja víða sam­an með Eystra­salts­ríkj­un­um og gjarn­an er mik­ill sam­hljóm­ur í áhersl­um okk­ar og af­stöðu. Við erum nán­ir banda­menn í Atlants­hafs­banda­lag­inu, á vett­vangi Sam­einuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofn­ana. Þá eru lönd­in þrjú mik­il­væg­ir sam­herj­ar Íslands í evr­ópsku sam­starfi. Sam­vinna Norður­landa og Eystra­salts­ríkj­anna er náin og vax­andi.

Heim­sókn for­seta og ut­an­rík­is­ráðherra Eystra­salts­ríkj­anna til Íslands er kær­komið tæki­færi til að styrkja enn bet­ur þessi nánu og góðu tengsl. Meðan á henni stend­ur und­ir­rit­um við ut­an­rík­is­ráðherr­arn­ir sér­staka hátíðar­yf­ir­lýs­ingu í Höfða þar sem við árétt­um gagn­kvæm­an vilja til að efla enn frek­ar tví­hliða sam­skipti, viðskipti, margþætt sam­starf á alþjóðleg­um vett­vangi og vináttu­bönd ríkj­anna til framtíðar. Þar er einnig fjallað um framtíðaráskor­an­ir á sviði ör­ygg­is­mála í ljósi inn­rás­ar Rúss­lands í Úkraínu.

Treyst­um bönd­in

Þegar kem­ur að mik­il­vægi sam­eig­in­legra varna í Atlants­hafs­banda­lag­inu eiga öll banda­lags­rík­in mikla hags­muni að verja. Þó er óhætt að full­yrða að hætt­an sé hvergi eins raun­veru­leg og í þeim lönd­um sem áður hafa lotið ægi­valdi frá Moskvu eða verið her­set­in af Rússlandi. Eystra­salts­rík­in hafa lengi varað við hætt­unni sem staf­ar af áform­um ráðamanna í Kreml. Lengi þótti ýms­um að viðvör­un­ar­orð þeirra væru um­fram til­efni, en því miður hafa Rúss­ar síðan gengið lengra en nokk­urn óraði fyr­ir.

Ísland hef­ur tekið full­an þátt í þeim þving­un­araðgerðum sem sam­starfs­ríki okk­ar í Evr­ópu hafa samþykkt. Þessi til­efn­is­lausa árás Rússa á grann­ríki sitt minn­ir á að sam­eig­in­leg gildi um frelsi, rétt­ar­ríki og mann­rétt­indi eru ekki sjálf­gef­in. Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seti fer fremst­ur í flokki þeirra sem grafið hafa mark­visst und­an þess­um gild­um en því miður á hann sína áhang­end­ur sem með vilja eða í villu neita enn að skilja hve al­var­leg þessi aðför er. Ef við hlú­um ekki að þess­um gild­um og vernd­um þau þynn­ast þau út og glat­ast að lok­um. Al­ger sam­hljóm­ur hef­ur verið á meðal Íslands og Eystra­saltsþjóðanna um að inn­rás­in í Úkraínu sé gróf árás á þessi gildi og í þeirri bar­áttu sem nú stend­ur yfir þurf­um við öll að leggja okk­ar af mörk­um.

Ég er sann­færð um að sam­skipti Íslands og Eystra­salts­ríkj­anna eigi enn eft­ir að efl­ast og bönd­in á milli okk­ar styrkj­ast. Þar er sam­eig­in­leg saga, vinátta og virðing mik­il­væg­ur grunn­ur og sú staðreynd að við deil­um sömu grund­vall­ar­gild­um. Þá vex sam­gang­ur þjóðanna jafnt og þétt eins og sést best á þeim fjölda fólks frá Eystra­saltslönd­un­um sem hef­ur gert Ísland að heim­ili sínu, og þannig bæði auðgað þjóðlífið og lagt sitt af mörk­um við að skapa hag­sæld und­an­far­inna ára. Varla er hægt að hugsa sér betri und­ir­stöður fyr­ir gott sam­band vinaþjóða.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. ágúst 2022.