Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Það tók nýjan meirihluta borgarstjórnar aðeins þrjá mánuði að valda kjósendum vonbrigðum og mælanlegu tjóni. Væntingar fólks um breytingar í borginni voru að engu hafðar. Loforð borgarstjóra um leikskólapláss að loknu fæðingarorlofi reyndust innantóm lygi um hábjartan dag.
Óheiðarleiki og tækifærismennska
Í aðdraganda kosninga fullyrti borgarstjóri, í hverjum kappræðunum á fætur öðrum, að öllum 12 mánaða börnum yrði tryggt leikskólapláss strax í haust. Aðrir fulltrúar meirihlutans tóku í sama streng. Þegar við sjálfstæðismenn bentum á ómöguleika málsins og að áfram þyrfti að vinna að lausn vandans vorum við úthrópuð af fulltrúum Pírata fyrir „óheiðarleika og tækifærismennsku“.
Nú er komið á daginn að sjálfstæðismenn höfðu á réttu að standa. Engan sérstakan talnaspeking þurfti til að sjá að fyrirhugaðar aðgerðir myndu aldrei leysa fyrirliggjandi vanda. Innantóm loforð fallins meirihluta voru sett fram af óheiðarleika og tækifærismennsku í aðdraganda kosninga. Vonir og væntingar örvæntingarfullra foreldra voru hafðar að engu.
3,9 milljónir á hverja fjölskyldu
Viðskiptaráð Íslands birti á dögunum greiningu á þeim kostnaði sem fellur á hverja fjölskyldu sem ekki fær leikskólapláss fyrir barn sitt við 12 mánaða aldur. Gera má ráð fyrir því að bið eftir leikskólaplássi leiði til þess að annað foreldrið verði utan vinnumarkaðar meðan á biðinni stendur. Sé tekið mið af meðallaunum og meðalvinnustundum launþega á aldursbilinu 20-34 ára má reikna með að fórnarkostnaðurinn á hvert heimili nemi að meðaltali rúmum 3,9 milljónum króna í tapaðar launatekjur. Miðar útreikningurinn við að biðin eftir leikskólarými standi einungis til 19 mánaða aldurs, en þó eru fjölmörg dæmi um börn sem bíða vel á þriðja aldursár eftir leikskólarými á borgarreknum leikskólum.
Breyttar áherslur og nýjar lausnir
Það er þverpólitískur vilji til þess að bjóða öllum 12 mánaða börnum leikskólapláss í Reykjavík. Staðreyndn er hins vegar sú að samkvæmt nýlegri spá Byggðastofnunar mun börnum á leikskólaaldri fjölga um 37% milli áranna 2021 og 2026. Björtustu spár borgarinnar gera hins vegar aðeins ráð fyrir 8.385 leikskólaplássum árið 2026, sem nemur aðeins 83% af þörfinni. Það er því fyrirséð að lausn vandans er hvergi í sjónmáli.
Lausn leikskólavandans mun ekki liggja fyrir nema til komi breyttar áherslur og nýjar lausnir. Við þurfum skammtímaaðgerðir sem viðbragð við bráðavanda – en jafnframt langtímalausnir til framtíðar. Vandinn verður ekki leystur án kerfisbreytinga og nýrra lausna sem raunverulega þjóna þörfum fjölskyldna í borginni.
Leikskólamál verði forgangsmál
Foreldrar ungra barna hafa vitanlega fengið sig fullsadda á úrræðaleysinu. Sannarlega eru mörg sveitarfélög í vanda stödd - en hvergi voru gefin eins umbúðalaust óheiðarleg fyrirheit og í Reykjavík fyrir síðustu kosningar.
Það er pólitísk ákvörðun að gera leikskólamál að forgangsmálum í Reykjavík. Við þurfum að horfa heildstætt á vandann og leita nýrra lausna. Við sjálfstæðismenn erum reiðubúnir í samtalið um raunhæfar aðgerðir og breyttar áherslur. Það er kominn tími til að kerfið aðlagi sig að þörfum fjölskyldunnar – því fjölskyldan hefur um of langa hríð þurft að aðlaga sig að vanmáttugu kerfi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. ágúst 2022.