Frjálslyndi leysir leikskólavandann, ekki forræðishyggja
'}}

Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir borgarfulltrúi:

Það var fyrst fyr­ir 12 árum sem ég heyrði lof­orð Sam­fylk­ing­ar­inn­ar um leik­skóla­pláss við 12 mánaða ald­ur. Þá var ég tví­tug móðir á biðlista eft­ir leik­skóla­plássi sem var þó svo hepp­in að fá pláss hjá dag­for­eldri. Stefna borg­ar­stjórn­ar­meiri­hluta Sam­fylk­ing­ar­inn­ar þá var að leggja niður dag­for­eldra­kerfið því ung­barna­leik­skól­arn­ir ættu að taka við og ekki var gert ráð fyr­ir neinni ann­arri dag­vist­un­arþjón­ustu. Heilt yfir áttu þetta líka allt að vera borg­ar­rekn­ir leik­skól­ar og því einka­rekn­ir leik­skól­ar ekki beint í náðinni held­ur. Aug­ljós­lega bar þessi stefna eng­an ár­ang­ur enda gegn­sýrð af for­ræðis­hyggju og eins­leitni en í þessu krist­all­ast mun­ur­inn á hug­mynda­fræði vinstri meiri­hlut­ans í borg­ar­stjórn og Sjálf­stæðis­flokks­ins í mála­flokkn­um. Á meðan vinstri meiri­hlut­inn í borg­ar­stjórn leit­ast við að hefta val­frelsi fjöl­skyldna og vinna gegn fjöl­breytni berst Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn fyr­ir því að auka það. Excel-sósí­al­ismi virðist vera helsta hug­mynda­fræði meiri­hlut­ans. Fólk er bara töl­ur á tölvu­skjám.

Þegar frjáls­lynd hug­mynda­fræði leiðir mála­flokk­inn verður hlut­verk borg­ar­inn­ar fyrst og fremst það að tryggja fjöl­skyld­um fjöl­breytt þjón­ustu­fram­boð svo all­ir finni eitt­hvað við sitt hæfi. Með því að veita fjöl­skyld­um raun­veru­legt val fá þær verk­fær­in til að leiða framþróun í mála­flokkn­um með vali sínu. Ein­hverj­ar fjöl­skyld­ur vilja kannski helst hafa börn­in sín á leik­skóla vegna skipu­lags starfs­ins þar en aðrar vilja frek­ar hafa börn­in sín hjá dag­for­eldri, til dæm­is vegna minni barna­hópa og per­sónu­legri tengsla við dag­for­eldrið. Það er mun­ur á milli dag­for­eldra eins og leik­skóla og ein­hverj­ir dag­for­eldr­ar gætu ákveðið að bjóða upp á sér­tæk­ari þjón­ustu sem leik­skól­ar geta ekki boðið upp á þar sem unnið er með sérþarf­ir barna. Þar fyr­ir utan eru fjöl­marg­ar mis­mun­andi stefn­ur og straum­ar í kennslu­fræðum á leik­skóla­stigi og fá­menn­ur hóp­ur í Ráðhús­inu mun seint geta séð fyr­ir eða látið sér detta í hug alla framtíðar­kennslu- og þjón­ustu­mögu­leika mála­flokks­ins. Enda þarf þess ekki þegar við rek­um mála­flokk­inn af frjáls­lyndi, en þá tryggj­um við að kerfið sé þannig að frum­kvöðlar og fag­menntaðir geti lagt sitt á vog­ar­skál­arn­ar með því að greiða leið þeirra sem vilja bæta við fram­boð dag­vist­un­arþjón­ustu í borg­inni.

Við sjálf­stæðis­menn í borg­inni höf­um áður bar­ist fyr­ir því að fé fylgi barni í leik­skóla óháð því hvort hann sé einka­rek­inn eða borg­ar­rek­inn og við höld­um þeirri bar­áttu öt­ul­lega áfram. Nú leggj­um við fram til­lögu þess efn­is að niður­greiðslur til dag­for­eldra séu hækkaðar svo kostnaður­inn sé til jafns við leik­skóla­gjöld. Allt eru þetta skref í átt að meira frjáls­lyndi í þágu fjöl­skyldna í borg­inni, en það er ljóst að vand­inn mun ekki leys­ast ef haldið er áfram á for­ræðis­hyggju­braut meiri­hlut­ans í borg­ar­stjórn.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. ágúst 2022.