Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir borgarfulltrúi:
Það var fyrst fyrir 12 árum sem ég heyrði loforð Samfylkingarinnar um leikskólapláss við 12 mánaða aldur. Þá var ég tvítug móðir á biðlista eftir leikskólaplássi sem var þó svo heppin að fá pláss hjá dagforeldri. Stefna borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingarinnar þá var að leggja niður dagforeldrakerfið því ungbarnaleikskólarnir ættu að taka við og ekki var gert ráð fyrir neinni annarri dagvistunarþjónustu. Heilt yfir áttu þetta líka allt að vera borgarreknir leikskólar og því einkareknir leikskólar ekki beint í náðinni heldur. Augljóslega bar þessi stefna engan árangur enda gegnsýrð af forræðishyggju og einsleitni en í þessu kristallast munurinn á hugmyndafræði vinstri meirihlutans í borgarstjórn og Sjálfstæðisflokksins í málaflokknum. Á meðan vinstri meirihlutinn í borgarstjórn leitast við að hefta valfrelsi fjölskyldna og vinna gegn fjölbreytni berst Sjálfstæðisflokkurinn fyrir því að auka það. Excel-sósíalismi virðist vera helsta hugmyndafræði meirihlutans. Fólk er bara tölur á tölvuskjám.
Þegar frjálslynd hugmyndafræði leiðir málaflokkinn verður hlutverk borgarinnar fyrst og fremst það að tryggja fjölskyldum fjölbreytt þjónustuframboð svo allir finni eitthvað við sitt hæfi. Með því að veita fjölskyldum raunverulegt val fá þær verkfærin til að leiða framþróun í málaflokknum með vali sínu. Einhverjar fjölskyldur vilja kannski helst hafa börnin sín á leikskóla vegna skipulags starfsins þar en aðrar vilja frekar hafa börnin sín hjá dagforeldri, til dæmis vegna minni barnahópa og persónulegri tengsla við dagforeldrið. Það er munur á milli dagforeldra eins og leikskóla og einhverjir dagforeldrar gætu ákveðið að bjóða upp á sértækari þjónustu sem leikskólar geta ekki boðið upp á þar sem unnið er með sérþarfir barna. Þar fyrir utan eru fjölmargar mismunandi stefnur og straumar í kennslufræðum á leikskólastigi og fámennur hópur í Ráðhúsinu mun seint geta séð fyrir eða látið sér detta í hug alla framtíðarkennslu- og þjónustumöguleika málaflokksins. Enda þarf þess ekki þegar við rekum málaflokkinn af frjálslyndi, en þá tryggjum við að kerfið sé þannig að frumkvöðlar og fagmenntaðir geti lagt sitt á vogarskálarnar með því að greiða leið þeirra sem vilja bæta við framboð dagvistunarþjónustu í borginni.
Við sjálfstæðismenn í borginni höfum áður barist fyrir því að fé fylgi barni í leikskóla óháð því hvort hann sé einkarekinn eða borgarrekinn og við höldum þeirri baráttu ötullega áfram. Nú leggjum við fram tillögu þess efnis að niðurgreiðslur til dagforeldra séu hækkaðar svo kostnaðurinn sé til jafns við leikskólagjöld. Allt eru þetta skref í átt að meira frjálslyndi í þágu fjölskyldna í borginni, en það er ljóst að vandinn mun ekki leysast ef haldið er áfram á forræðishyggjubraut meirihlutans í borgarstjórn.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. ágúst 2022.