Leikskólamál í lamasessi
'}}

Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

ú eru þrír mánuðir liðnir frá borgarstjórnarkosningum og borgarbúum strax farið að svíða undan sviknum loforðum meirihlutaflokkanna. Að þessu sinni eru foreldrar leikskólabarna í eldlínunni vegna brostinna vona um leikskólapláss fyrir börn þeirra að loknu fæðingarorlofi.

Áætlanir sem standast ekki skoðun

Þann 3. mars síðastliðinn, í aðdraganda borgarstjórnarkosninga, kynnti borgarstjóri „verulega fjölgun leikskólarýma á næstu mánuðum og misserum“. Sagði hann stefnt að því að taka í notkun 850 ný leikskólarými í ár, en alls 1680 ný rými á næstu þremur árum. Opnaðir yrðu alls átta nýir leikskólar þetta árið og öllum 12 mánaða börnum tryggt leikskólapláss strax í haust.

Í umfjöllun Viðskiptablaðsins í maí síðastliðnum kom fram að jafnvel þó markmið Reykjavíkurborgar um fjölgun leikskólarýma um 1.680 á næstu þremur árum myndu nást, myndi samt vanta 1.775 leikskólapláss í árslok 2026 væri miðað við nýlega spá Byggðastofnunar um fjölda barna á aldrinum 1-5 ára í höfuðborginni. Spáin gerði ráð fyrir 10.160 börnum á leikskólaaldri í árslok 2026, sem samsvarar rúmlega 37% fjölgun frá árinu 2021, en miðað við áætlanir Reykjavíkurborgar verða einungis 8.385 leikskólapláss á þeim tímapunkti.

Það er engin sérstök nýlunda að Reykjavíkurborg geri áætlanir sem standast ekki skoðun.

Met í óheiðarleika og tækifærismennsku

Áfram létu fulltrúar meirihlutans spár, tölfræði og varnaðarorð ekki þvælast fyrir sér og lofuðu fullum fetum leikskólaplássi fyrir öll 12 mánaða börn strax í haust. Þegar undirrituð benti á þann veruleika að ekki yrði unnt að bjóða leikskólarýmin miðað við fyrirliggjandi áætlanir, og áfram þyrfti að vinna að málinu, var hún sökuð um „met í óheiðarleika og tækifærismennsku“ af borgarfulltrúa Pírata.

Nú, þremur mánuðum eftir kosningar, má spyrja sig, hverjir raunverulega slógu met í óheiðarleika og tækifærismennsku í aðdraganda kosninga? Sjálfstæðismenn sem bentu á veruleikann í málinu – eða meirihlutaflokkarnir sem gegn betri vitund, fylltu foreldra fölskum væntingum um leikskólarými fyrir börn þeirra, sem augljóslega var aldrei hægt að efna? Þau sem settu fram heiðarlega greiningu á málinu, eða þau sem settu vísvitandi fram óheiðarlega greiningu í miðjum atkvæðaveiðum?

Að einhenda sér í sumarfrí

Í aðdraganda kosninga árið 2018 voru rúm 800 börn á biðlista eftir leikskólaplássi. Í aðdraganda kosninga árið 2022 voru áfram um 800 börn á biðlista eftir leikskólaplássi. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum frá skóla- og frístundasviði eru nú á haustdögum enn tæp 800 börn á biðlista eftir leikskólaplássi, þrátt fyrir fögur fyrirheit í aðdraganda kosninga. Illa gengur að stytta biðlista, illa gengur að manna leikskóla og illa gengur að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.

Leikskólavandinn í borginni er engin tilviljun. Um málaflokkinn hafa haldið stjórnmálaöfl sem sýna málefnum fjölskyldunnar ítrekað sinnuleysi. Kjósendur í síðastliðnum borgarstjórnarkosningum voru flestir sammála um að tími væri kominn á breytingar. Afleiðingin var glæstur árangur Framsóknarflokksins sem boðaði nýja tíma í stjórnmálunum.

Framsóknarflokkurinn tók við málefnum leikskólanna í nýjum meirihluta. Maður myndi ætla að nýir borgarfulltrúar flokksins væru fullir eldmóðs að bretta upp ermar og vinna í þágu borgarbúa að loknum kosningum. Nú, þremur mánuðum eftir kosningar, virðist flokkurinn hins vegar ekkert hafa gert til að taka á vanda leikskólanna – jafnvel þó mörg hundruð börn biðu eftir leikskólarými í haust. Fulltrúarnir virtust öllu fremur hæstánægðir með nýju vinnuna og einhentu sér í langt sumarfrí – meðan örvæntingarfullir foreldrar biðu ráðþrota eftir lausnum.

Leikskólamál eru jafnréttismál

Það er pólitísk ákvörðun að gera leikskólamál að forgangsmálum. Þeir flokkar sem leitt hafa borgina í einni eða annarri mynd á síðastliðnum 16 árum hafa ákveðið að láta málefni leikskólanna mæta afgangi.

Það er krafa í nútímasamfélagi að bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla verði brúað. Ríkisstjórnin hefur lengt fæðingarorlof en borgin hefur setið með hendur í skauti. Leikskólamálin eru stærsta jafnréttismál sem sveitastjórnarstigið fæst við. Það þarf pólitískt þor og vinnusemi til að horfast í augu við vandann og beita nýstárlegum lausnum til að breyta því kerfi sem ekki þjónar fjölskyldum í borginni.

Við þurfum að skapa borg sem býður trausta og áreiðanlega daggæslu eða leikskólavist strax í kjölfar fæðingarorlofs. Leysa þarf mannekluvanda leikskólanna og draga úr brottfalli dagforeldra. Jafnframt þarf að styðja við sjálfstætt starfandi leikskóla sem svarað hafa eftirspurn sem borgin hefur ekki getað mætt. Við þurfum nýjar og skapandi lausnir, framsækna leikskólaþjónustu, öfluga daggæslu og úrval valkosta – það er mikilvægt jafnréttismál.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 18. ágúst 2022.