Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Samtök atvinnurekenda og launafólks hafa undirgengist þá skyldu að ná samningum um kaup og kjör sem byggjast á efnahagslegum veruleika. Með því eru bætt lífskjör best tryggð, ekki síst þeirra sem lakast standa. Það er því engum til hagsbóta – hvorki atvinnurekendum né launafólki – að verkalýðshreyfingin logi stafna á milli – sé sundruð vegna illdeilna og persónulegra hjaðningavíga.
Í aðdraganda kjarasamninga brýnir forysta stéttarfélaganna kutana. Slíkt er eðlilegt og oft kann að vera nauðsynlegt að ganga sæmilega herskár til leiks. Auðvitað hafa áður verið átök innan stéttarfélaga, líkt og í mörgum öðrum félögum og samtökum. En það eru áratugir síðan hnífarnir voru fremur notaðir í innbyrðis persónulegum átökum en gagnvart atvinnurekendum og eftir atvikum ríkisvaldinu. Þau átök voru lituð af harkalegum þjóðfélagslegum átökum þegar tekist var á um þjóðskipulagið.
Áhrifalitlir félagsmenn
Almennir félagsmenn verkalýðsfélaga sitja áhrifalitlir hjá þegar formenn eru í illdeilum hver við annan. Að einhverju leyti verður launafólk að horfa í eigin barm. Herskáir verkalýðsleiðtogar hafa ekki síst komist til valda í skjóli þess að yfirgnæfandi meirihluti félagsmanna nýtir sér ekki rétt til að kjósa forystu. Stór hluti launafólks er óvirkur í starfi eigin stéttarfélags og fyrir því kunna að vera margar ástæður. Ein er örugglega sú að í raun ríkir ekki félagafrelsi á vinnumarkaði, þrátt fyrir skýr ákvæði í 74. grein stjórnarskrárinnar og ýmsa alþjóðasáttmála sem Ísland hefur undirgengist.
Félagafrelsið nýtur ríkari verndar stjórnarskrár á Íslandi en í nágrannalöndum. En almenn löggjöf hefur sett meiri skorður við rétt einstaklinga hér á landi en í öðrum löndum, til þess að velja sér félag eða standa utan félaga. Vinnumarkaðslöggjöfin þrengir svo að félagafrelsi að illa er hægt að halda því fram að launafólk hafi raunverulegt frelsi til að ákveða félagsaðild sína sjálft. Þrátt fyrir að launamanni sé heimilt að standa utan stéttarfélags hefur lagaumgjörðin verið með þeim hætti að það valfrelsi er í raun eingöngu að nafni til en ekki í raun.
Þegar einhver er neyddur eða telur sig neyddan til þess að eiga aðild að félagi eru meiri líkur en minni á því að viðkomandi hafi lítinn áhuga á starfi félagsins. En með sinnuleysi sínu greiðir hann leið róttæklinga í valdastöður og veitir þeim aðgang að miklum fjármunum sem félagsmönnum er gert að greiða. Afleiðingin er djúpstæður klofningur og illdeilur í forystusveit verkalýðshreyfingarinnar. Launafólk greiðir kostnaðinn enda hagsmunir þess ekki varðir á meðan eldar loga. Og þá má spyrja hvaða hagsmunum sé verið að þjóna!
Erfiðir samningar
Óháð sundrungu innan Alþýðusambands Íslands er ljóst að komandi kjarasamningar verða flóknir og erfiðir. Og eins og svo oft áður verður þess krafist að ríkisvaldið grípi til aðgerða til að samningar náist. Kröfurnar verða miklar. Auka skal útgjöld á flestum sviðum, tryggja byggingu þúsunda félagslegra leiguíbúða, og svo framvegis. Listinn verður langur.
Það mun því reyna á ríkisstjórnina og stjórnarflokkana á komandi vetri. Svigrúm til aukinna útgjalda er lítið sem ekkert – ekki frekar en launahækkana. En það breytir því ekki að með ýmsum hætti getur ríkisvaldið – rétt eins og sveitarfélögin – búið til jarðveg fyrir kjarasamninga sem byggjast á efnahagslegum veruleika.
Allir vita (þótt einhverjir eigi erfitt með að viðurkenna það) að krónutöluhækkun skiptir launamanninn engu ef hækkunin er étin upp í verðbólgu og hækkun opinberra skatta og gjalda. Líklegt er að hann standi verr að vígi þar sem kaupmáttur minnkar og ráðstöfunartekjur lækka enn meira.
Ég hef ítrekað haldið því fram að lífskjör launafólks ráðist ekki aðeins af því hversu margar krónur eru í launaumslaginu eftir að skattar og gjöld hafa verið greidd. Lífskjörin ráðast ekki síður af því hvernig til tekst við alla stjórnsýslu hins opinbera – hversu hagkvæm og góð þjónustan er. Á þetta hafa hundruð foreldra í Reykjavík verið minnt með harkalegum hætti.
Í kaldakoli
Í Reykjavík eru leikskólamálin í kaldakoli eftir forystu Samfylkingarinnar í þeim málaflokki frá árinu 2010. Ég óttast að Kristín Tómasdóttir, fjögurra barna móðir í Reykjavík, hafi rétt fyrir sér þegar hún segir: „Konur eru bara á leiðinni aftur inn á heimilin í landinu, að hugsa um börnin okkar, af því að við erum ekki með dagvistun.“ Kristín ásamt fleiri foreldrum sem eru upp við vegg vegna svikinna loforða um dagvistun hefur skipulagt mótmæli í Ráðhúsi Reykjavíkur. En fátt er um svör og stóru loforðin sem gefin hafa verið af fulltrúum meirihlutans hafa reynst innistæðulaus rétt eina ferðina.
Tryggt og öruggt aðgengi barna að dagvistun er ekki einkamál þeirra og foreldranna, heldur grunnatriði í viðleiti okkar til að tryggja jafnrétti á vinnumarkaði. Staðan ógnar atvinnuþátttöku kvenna og getur dregið verulega úr henni ef ekki rætist úr.
Í komandi kjarasamningum hljóta augu forystu samtaka launafólks að beinast að stöðunni í leikskólamálum í öllum sveitarfélögum. Ég er hugsi yfir því hve lítið heyrist í forystu stéttarfélaga vegna þess ófremdarástands sem hefur skapast og þó hafa margir forystumenn stigið fram með stóryrðum af minna tilefni. Í stað þess að leggjast á árarnar með foreldrum í vanda er áherslan lögð á innbyrðis hjaðningavíg, samhliða „keppni í því að vera sem kjaftforastur til að vera misskilinn sem róttækastur“.
Slakað á klónni
Ég hef aldrei skilið af hverju forystufólk verkalýðshreyfingarinnar veitir sveitarfélögunum ekki meira aðhald en raun ber vitni, er varðar þjónustu, álögur og gjöld. Fyrir fólk með meðallaun og lægri skiptir útsvarsprósentan meira máli en skatthlutfall tekjuskatts. Í heild greiðir íslenskt launafólk meira í útsvar en tekjuskatt.
En alveg sama hversu erfitt og flókið það verður að ná kjarasamningum mun það takast með einum eða öðrum hætti – að lokum. Kröfurnar sem gerðar verða á hið opinbera og þá sérstaklega ríkissjóð verða margvíslegar. Skynsamlegasta krafan sem samtök launafólks geta lagt fram gagnvart ríkisvaldinu er að mörkuð verði langtímastefna í ríkisfjármálum, sem taki mið af því að aukinn hluti hagvaxtar verði eftir í vösum launafólks. Auðvitað fer kaldur hrollur um sannfærða sósíalista þegar rætt er um það að hlutfallsleg stærð ríkissamneyslunnar af þjóðarkökunni minnki þegar kakan stækkar. Engu skiptir þótt kökusneið ríkisins verði þrátt fyrir það stærri. Þetta heitir að slaka aðeins á klónni.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. ágúst 2022.