Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla- iðnaðar og
nýsköpunarráðherra:
Það fer ekki framhjá neinum að foreldrar ungra barna í Reykjavík eru í
vanda staddir þar sem þeir fá ekki leikskólapláss fyrir börnin sín, með
tilheyrandi vinnu- og tekjutapi. Þetta er alvarlegt mál og hefur bein
áhrif á lífsgæði fólks í borginni. Borg sem getur ekki þjónustað ungt barnafólk
býður ekki upp á bjartar framtíðarhorfur og það er eðlilegt að fólk láti í
sér heyra.
Það hefur þó aldrei verið skortur á loforðum. Árið 2014 kom loforð um að
brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með fjölbreyttum aðferðum.
Árið 2018 var loforðið það að hægt yrði að bjóða 12 til 18 mánaða börnum
pláss, ásamt því að fram kom að staðan væri við það að leysast. Fyrir kosningarnar
í ár var síðan sagt að meirihlutinn væri að ljúka við að brúa bilið milli
fæðingarorlofs og leikskóla og fullyrt að hægt yrði að bjóða öllum 12
mánaða börnum leikskólavist í haust. Hin raunverulega staða er þó allt önnur.
Núna hefur borgarbúum með börn hefur verið sagt að bíða í viku eftir
svari. Verst er að vikurnar eru nú þegar orðnar fjögur hundruð tuttugu og
átta.
Vanmáttur Reykjavíkurborgar í leikskólamálum er bara ein birtingarmynd
forystuleysis þeirra sem stýra borginni. Þjónustu borgarinnar hefur
hrakað um árabil samhliða versnandi fjárhag hennar og nú er að koma betur
í ljós hversu vanmáttug borgin er til að sinna þjónustu sinni við borgarbúa.
Það skýrist að miklu leyti af því að það virðist ekki vera markmið vinstri
meirihlutans að þjónusta borgarbúa, heldur vill hann að borgarbúar
þjóni honum.
Þegar borgarbúar benda á umferðarþunga er þeim sagt að þeir eigi ekki að
vera að keyra. Þegar bent er á að götur séu ekki sópaðar fer af stað auglýsingaherferð
gegn nagladekkjum og þegar bent er á að ruslið sé ekki sótt er fólk minnt á
að flokka ruslið. Þegar rætt er um of hátt íbúðaverð og skort á lóðum, er endurunnum
glærum með gömlum áætlunum um íbúðir sem átti að byggja einhvern tímann
varpað upp á vegg. Þegar mygla kemur upp í skóla er reynt að láta eins og vandinn
sé ekki til staðar og foreldrar sakaðir um móðursýki.
Þetta eru bara nokkur dæmi um það hvernig vinstri meirihlutinn í borginni
er með hugann við eitthvað allt annað en að mæta grunnþörfum borgarbúa.
Íbúar í Reykjavík þurfa kjörna fulltrúa sem huga að því að einfalda líf
þeirra og veita þá þjónustu sem þeir greiða fyrir með útsvari sínu. Þau
vandamál sem hér hafa verið rakin, þar með talið leikskólavandinn, verða
ekki löguð fyrr en hugarfar og nálgun meirihlutans í borginni gagnvart
borgarbúum breytist.
Svo er spurning hvort það breytist. Framsóknarflokkurinn í Reykjavík
spurði í aðdraganda kosninga hvort ekki væri kominn tími á breytingar?
Kjósendur svöruðu því játandi og felldu meirihlutann. Eina breytingin
sem Reykvíkingar fengu er að nú eru fleiri hausar til að afsaka forystuleysið
sem áfram einkennir borgina.
Morgunblaðið, 15. ágúst 2022.