Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Íslendingar, líkt og allar aðrar frjálsar þjóðir, hafa verið minntir harkalega á hve sameiginlegt öflugt varnarsamstarf NATO er mikilvægt. Værukærð, sakleysi eða rómantískar hugmyndir um vopnleysi og friðelskandi heim eru tálsýn sem í gegnum söguna hefur kostað þjóðir sjálfstæði og milljónir manna lífið.
Svívirðileg innrás Rússlands í Úkraínu undir stjórn hrotta sem virðir hvorki sjálfstæði þjóða né frelsi einstaklinga hefur leitt vel í ljós hversu berskjaldaðar frjálsar þjóðir geta orðið gagnvart yfirgangi, þegar þær eru efnahagslega háðar þrælmennum. Engu er líkara en að barnaleg stefna helstu ríkja Evrópu í orkumálum hafi fyrst og síðast falist í því að verða stöðugt háðari Rússlandi um olíu og gas. Enginn leiðtogi, allra síst í Þýskalandi, hafði áhyggjur af því hvernig barnaskapurinn gróf undan öryggi vestrænna þjóða. Joe Biden hefur smitast af glámskyggni evrópskra stjórnmálamanna.
Innrásin vakti leiðtoga Vesturlanda upp af vondum draumi – martröð. Þeir þurftu að horfast í augu við að hafa illa sinnt varnar- og öryggismálum, fylgt ábyrgðarlausri stefnu í orkumálum og sýnt dómgreindarleysi í samskiptum við ofbeldismann, sem telur sig hafa náð tökum á frjálsum þjóðum líkt og eiturlyfjasali sem nýtir sér neyð fíkilsins.
Dýrkeyptur lærdómur
Og það hefur orðið algjör umpólun í stefnu flestra ríkja Evrópu í öryggis- og varnarmálum. Þjóðverjar ætla að stórauka framlög til hermála. Finnland og Svíþjóð verða innan tíðar fullgildir aðilar að NATO. Öfugt við það sem Pútín ætlaði sér hefur samstaða innan NATO orðið meiri og almennur stuðningur við það stóraukist. Bandaríkin hafa loksins vaknað eftir að hafa fengið enn eina staðfestinguna – og það harkalega – á því hve mikilvægt það er fyrir stórveldið að öflugt samstarf sé meðal þjóða beggja vegna Atlantshafsins.
Hvort Pútín hefði lagt í ofbeldisverkin í Úkraínu ef helstu ríki Evrópu hefðu ekki verið háð Rússlandi í orkumálum er áleitin spurning sem aldrei verður svarað. Eitt er hins vegar víst; ákvörðunin um innrás var a.m.k. einfaldari og í huga ofbeldismannsins í Kreml fremur áhættulítil. Hertaka Krímskaga árið 2014 gekk „eins og í sögu“ og viðbrögð Vesturlanda voru fálmkennd og veikluleg. Viðskiptaþvinganir gagnvart Rússlandi voru sniðnar að hagsmunum stærstu ríkja Evrópusambandsins – bitlausar og skiluðu litlu öðru en einhverri sálarró embættismanna og stjórnmálamanna á meginlandi Evrópu.
Viðbrögðin við innrásinni í Úkraínu sýna að leiðtogar og almenningur frjálsra þjóða hafa sem betur fer lært ýmislegt. En sá lærdómur breytir því ekki að ósjálfstæði í orkumálum hefur magnað áhrifin af stríðinu í Úkraínu á efnahag helstu ríkja Evrópu. Þýskur almenningur horfir fram á efnahagslegar þrengingar og orkukreppa blasir við. Ábyrgðarlaus stefna í orkumálum hefur gert öflugasta iðnríki álfunnar berskjaldað gagnvart orkukúgun Kremlverja. Það er ekki síst þess vegna sem vinstristjórn Olafs Scholz kanslara hefur ákveðið að halda kolaverum enn gangandi þrátt fyrir loforð um að hætta allri kolanotkun fyrir árið 2030. Og það er ekki ólíklegt að ríkisstjórnin neyðist til að hætta við að loka þeim þremur kjarnorkuverum sem enn eru starfandi. Að óbreyttu verður rekstri þeirra hætt í lok þessa árs. Lokun veranna á að vera lokahnykkurinn í áratugalangri áætlun um að binda enda á notkun kjarnorku í Þýskalandi og var mótuð í stjórnartíð Angelu Merkel, fyrrverandi kanslara, í kjölfar Fukushima-hörmunganna.
Stuðningur við að halda rekstri kjarnorkuveranna áfram hefur aukist en Politico greinir frá því að nýleg könnun leiði í ljós að 61% landsmanna er því fylgjandi. Andspænis orkukreppu hefur andstaðan við að framlengja líf kjarnorkunnar minnkað. Jafnvel meðal Græningja, sem eru aðilar að ríkisstjórninni, er vilji til þess að fresta lokun veranna. En málið er viðkvæmt, umdeilt og gæti hæglega klofið flokkinn.
Ákvörðun rússneska ríkisorkufyrirtækisins Gazprom í síðustu viku að minnka flutning um Nord Stream 1-gasleiðsluna frá Rússlandi til Þýskalands niður í fimmtung af flutningsgetu eykur ekki aðeins þrýsting á þýsk stjórnvöld heldur einnig líkurnar á orkuskorti á komandi mánuðum, sem hefur alvarleg efnahagsleg áhrif, ekki aðeins í Þýskalandi heldur um alla Evrópu.
Sjálfstæði í orkumálum
Þýskaland er ekki eitt um að vera háð Rússum um gas og olíu. Um 40% af gasi sem notað er í löndum Evrópusambandsins koma frá Rússlandi og fjórðungur olíunnar. Það er lífsnauðsynlegt fyrir Evrópusambandið að endurheimta sjálfstæði sitt frá Rússum.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hefur lýst því yfir að sambandið ætli að renna fleiri stoðum undir orkuöflun og snúa sér að „áreiðanlegri og traustari“ samstarfsaðilum en Rússum. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, var nýlega gestgjafi Mohammeds bin Salmanz, krónprins Sádi-Arabíu, en hann er sakaður um að hafa fyrirskipað morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi. Olaf Scholz Þýskalandskanslari og Mario Draghi, forsætisráðherra Ítalíu, hafa að sögn Politico farið á fjörurnar við olíuríki Norður-Afríku.
Kapphlaup er hafið um olíu og gas sem ekki er frá Rússlandi. Kostirnir sem eru í boði eru hins vegar ekki án siðferðilegra álitamála. Sádi-Arabía, Katar, Alsír og Íran virða almenn mannréttindi lítils en í orkuneyð eru stjórnvöld þessara landa kannski illskárri en Pútín.
Á komandi mánuðum og misserum verður það eitt meginverkefni leiðtoga Evrópu að tryggja orkuöryggi. Og þá skiptir ekki öllu hvort orkan er óhrein eða græn. Tryggt aðgengi að orku er ekki aðeins forsenda efnahagslegrar velmegunar, heldur einnig matvælaöryggis og landvarna. Án orku verður lítið framleitt af matvælum. Styrkur landvarna er í réttu hlutfalli við aðgengi að öruggri orku. Netöryggi skiptir litlu ef flókin tölvukerfi samtímans verða óvirk vegna skorts á rafmagni.
Í sinni einföldu mynd má segja að orka sé undirstaða allra samfélaga og þess vegna skiptir sjálfstæði í orkumálum svo miklu. Evrópa mun ekki öðlast orkusjálfstæði á nokkrum árum en síðustu mánuðir hafa kennt ráðamönnum hversu dýrkeypt það er að vera háður þeim sem virða í engu fullveldi annarra þjóða. Að þessu leyti erum við Íslendingar í öfundsverðri stöðu. Með því að nýta auðlindir landsins framleiðum við okkar eigin orku að stórum hluta. Ólíkt flestum öðrum þjóðum njótum við grænnar orku. En við erum enn háð innflutningi jarðefnaeldsneytis, ekki síst vegna samgangna.
Við Íslendingar höfum haft metnaðarfull áform í orkuskiptum og þar eru möguleikar okkar meiri og betri en flestra annarra þjóða. Hljóð og mynd fara hins vegar ekki saman hjá öllum, allra síst þeim sem leggja hart að sér í baráttu við að koma í veg fyrir að auðlindir landsins verði nýttar með skynsamlegum hætti við framleiðslu á hreinni orku. Með því er grafið undan möguleikum til orkuskipta, unnið gegn gríðarlegum þjóðhagslegum ávinningi og komið í veg fyrir að hægt sé að tryggja að Ísland verði sjálfu sér nægt í orkumálum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. ágúst 2022.