Pólitíkin – Þór Sigurgeirsson

Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, er gestur Ingvars P. Guðbjörnssonar í 66. þætti Pólitíkurinnar.

Þór tók við bæjarstjórastöðu eftir nýliðnar kosningar og er því fjórði bæjarstjóri Seltjarnarness síðan bærinn fékk kaupstaðarréttindi árið 1974. Sjálfstæðisflokkurin fékk 50,1% atkvæða í síðustu kosningum og hélt meirihluta sínum sem flokkurinn hefur haldið alla tíð í bæjarfélaginu.

Í þættinum ræddi Þór um áherslumál meirihlutans, um uppbyggingu nýs leikskóla sem er í ferli og um aðrar áherslur meirihlutans, m.a. um ábyrgð í rekstri. Rætt var um uppbyggingu Gróttubyggðar þar sem byggðar verða tæplega 140 íbúðaeiningar fyrir um 480 íbúa, en þegar það er allt uppbyggt skapast aðstæður til að fjölga íbúum á Seltjarnarnesi um nálægt 10%.

Skattamál, lækkun útsvars og viðbrögð við hækkandi fasteignamati komu til umræðu. Stefnt er að því að lækka útsvar í 13,7% árið 2023 og þá mun meirihlutinn koma til móts við íbúa með lægra álagningahlutfalli á fasteignaskatt með hækkandi fasteignamati í næstu fjárhagsáætlunargerð.

Rætt var um atvinnumálin á Seltjarnarnesi og um framþróun Eiðistorgs sem þjónustukjarna fyrir Seltirninga.

Þáttinn má nálgast hér.