Breyttir tímar
Eftir tveggja ára tímabil heimsfaraldurs kórónuveiru tók nýr kafli í Evrópu við með innrás Pútíns í Úkraínu. Þrátt fyrir að blikna í samanburði finnast áhrif innrásarinnar langt út fyrir landamæri Úkraínu. Hrávöruverð hefur hækkað og brestur á framleiðslukeðjum hefur sett daglegt líf heimila og fyrirtækja úr skorðum. Þó staðan sé betri hér en víða í nágrannaríkjum hafa Íslendingar ekki farið varhluta af alþjóðlegri verðbólguþróun undanfarna mánuði.
„Óhætt er að segja að samfélagið hafi tekið hratt við sér eftir faraldurinn, ekki síst vegna kröftugs stuðnings meðan á honum stóð. Það var ekki óumdeilt að ráðast í mótvægisaðgerðir upp á hundruð milljarða, en með þeim tókst að veita heimilum skjól, styðja við innlenda framleiðslu og halda lífsneistanum í fyrirtækjum sem nú ná vopnum sínum á ný,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni nefnir að skattkerfinu hafi verið beitt markvisst til að létta einstaklingum og fyrirtækjum róðurinn með tekjuskattslækkun, skattalegum hvötum til fjárfestinga og framkvæmda, skattafrádrætti vegna stuðnings við almannaheillafélög, VSK-endurgreiðslum, frestun gjalddaga og stórauknum stuðningi við nýsköpun og svo mætti áfram telja. Síðustu misseri í ríkisrekstri hafi því umfram annað einkennst af lækkandi tekjum og auknum útgjöldum en slík þróun fái hvergi þrifist til lengdar og breytt staða kalli á breytta nálgun.
„Mikilvægasta verkefni næstu mánaða er að draga úr þenslu og leggja grunn að hagsæld til lengri tíma. Verkefnið er framkvæmanlegt en krefjandi og kallar eðli málsins samkvæmt á málamiðlanir. Það er auðvelt að þylja upp nýjar útgjaldahugmyndir, en erfiðara að útskýra hver á að borga. Að sama skapi er auðveldara að sækja rétt sinn í botn og mæla fyrir vinsældarmálum líðandi stundar heldur en að leggja þau tímabundið til hliðar í þágu stóru myndarinnar. Lágir vextir, hófleg verðbólga og stöðugt umhverfi skipta heimilin hins vegar meira máli en skammtímaávinningur og litlir plástrar“, segir Bjarni.