Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Það hafa verið og verða alltaf til stjórnmálamenn sem hafa horn í síðu einstakra fyrirtækja eða jafnvel heilla atvinnugreina. Sumir vegna þess að þeir boða byltingu samfélagsins og þjóðnýtingu framleiðslutækjanna. Aðrir vegna þess að þeir eru í leit að vinsældum – eru á veiðum eftir atkvæðum. Þar fara fremstir pólitískir lukkuriddarar og tækifærissinnar. Ólíkt byltingarmönnum byggja þeir ekki á skýrri hugmyndafræði. Í sókn að lýðhylli flækist hugmyndafræði fyrir.
Stjórnmálamenn lýðhyggjunnar voru ekki lengi að taka við sér þegar fréttir bárust um að Síldarvinnslan í Neskaupstað hefði keypt fjölskyldufyrirtækið Vísi í Grindavík – rótgróið og glæsilegt sjávarútvegsfyrirtæki. Hátt var reitt til höggs með dyggri aðstoð fjölmiðla sem virðast hafa það í ritstjórnarstefnu sinni að flytja fréttir sem ýta undir tortryggni og öfund í garð fyrirtækja í sjávarútvegi. Þannig er vatni veitt á myllu lýðhyggjunnar – popúlismans.
Það er umhugsunarvert að annars vegar er lagst gegn því að aukin hagræðing verði í íslenskum sjávarútvegi (hagræðing sem styrkir samkeppnisstöðu fyrirtækjanna á hörðum alþjóðlegum markaði) og hins vegar er þess krafist að álögur á fyrirtækin verði hækkaðar stórkostlega. Þannig er sótt að fyrirtækjunum frá öllum hliðum. Verði lýðhyggjustefna – popúlismi lukkuriddaranna – ofan á verður hægt en örugglega grafið undan sjávarútvegi og hann gerður að þurfalingi líkt og sjávarútvegur flestra þjóða. (Við erum fljót að gleyma þeim tíma þegar stjórn efnahagsmála snerist um að tryggja rekstur óhagkvæms sjávarútvegs, þar sem auðlindum var sóað með rotnu kerfi millifærslna, bæjarútgerða og gengisfellinga, þar sem launahækkanir voru étnar upp með óðaverðbólgu).
Fyrir þann sem barist hefur fyrir beinni þátttöku almennings í íslensku atvinnulífi eru kaup Síldarvinnslunnar á Vísi fagnaðarefni. Fjölskyldufyrirtæki kemst í eigu almenningshlutafélags með vel á fimmta þúsund hluthafa, – öfluga fjárfesta, lífeyrissjóði og einstaklinga. Verkefnið sem blasir við er að fjölga þeim sjávarútvegsfyrirtækjum sem eru skráð á opinn hlutabréfamarkað – vinna að kerfisbreytingum sem auðvelda fyrirtækjunum og jafnvel knýja þau til að stíga skrefið til fulls og verða opin hlutafélög. Þannig samþættast enn betur hagsmunir sjávarútvegsins og almennings.
Gagnleg lesning
Ég hef áður í skrifum um íslenskan sjávarútveg sótt í smiðju Daða Más Kristóferssonar, prófessors í hagfræði og núverandi varaformanns Viðreisnar. Árið 2010 vann hann greinargerð um áhrif svokallaðrar fyrningarleiðar á afkomu og rekstur sjávarútvegsfyrirtækja. Greinargerðin var unnin að beiðni nefndar um endurskoðun á stjórnkerfi fiskveiða. Þingmenn allra flokka, jafnt flokksfélagar Daða Más sem aðrir, hefðu gagn af því að lesa greinargerðina í heild sinni en þar segir meðal annars:
„Aflamarkskerfið hefur skapað mikil verðmæti gegnum hagræðingu og verðmætari afurðir. Stærstur hluti hlutdeildarinnar í heildaraflamarki, varanlegu veiðiheimildanna, hefur skipt um eigendur síðan kerfinu var komið á. Sá umframhagnaður sem aflamarkskerfið skapaði hefur því þegar verið fjarlægður að mestu úr fyrirtækjunum með sölu aflaheimildanna. Nýir eigendur aflaheimilda hagnast ekki meira en eðlilegt er miðað við áhættuna í rekstri útgerðarfyrirtækja. Þetta takmarkar mjög tækifæri ríkisins til að auka gjaldtöku á útgerðinni án þess að það feli í sér eignaupptöku og hafi veruleg neikvæð áhrif á rekstrarskilyrði hennar.“
Okkur Íslendingum hefur tekist að byggja upp arðbæran sjávarútveg með fiskveiðistjórnunarkerfi sem stuðlar að hagkvæmri og sjálfbærri nýtingu auðlinda hafsins. Aðrar þjóðir sem hafa sjávarútveg í súrefnisvélum skattgreiðenda líta öfundaraugum til Íslands. Sú staðreynd að sjávarútvegur greiðir skatta og gjöld til ríkisins, í stað þess að vera á opinberu framfæri líkt og keppinautar í öðrum löndum, hefur ekki komið í veg fyrir að tækifærissinnar í stjórnmálum og fjölmiðlun, geri árangurinn tortryggilegan. Þrátt fyrir að sjávarútvegurinn sé eina atvinnugreinin sem greiðir sérstakt auðlindagjald, er stöðugt hamrað á því að landsmenn njóti ekki „réttmætrar“ hlutdeildar í hagnaði af nýtingu auðlindar. Sjávarútvegurinn greiðir þriðjung af afkomu fiskveiða í veiðigjöld, auk annarra skatta og gjalda, s.s. tekjuskatt af hagnaði. Hversu langt á að ganga?
Auðvitað er fiskveiðistjórnunarkerfið ekki gallalaust. Hið sama má segja um innheimtu veiðigjalda, ekki síst hversu langur tími líður frá lokum rekstrarárs til þess sem veiðigjöld eru lögð á og innheimt. Þessi langi tími hefur skapað jarðveg sem hentar lukkuriddurum. Samhengið milli veiðigjalda og afkomu verður illskiljanlegt.
Brimbrjótur framfara
Fyrir rúmlega ári kom út skýrsla óháðra sérfræðinga um stöðu og horfur í sjávarútvegi og fiskeldi, sem unnin var að beiðni þáverandi sjávarútvegsráðherra. Niðurstaðan var skýr: Sjávarútvegur hefur verið uppspretta helstu tækniframfara og nýsköpunar í hinu íslenska hagkerfi. Árangur Íslands er einstakur þar sem við höfum tekið alþjóðlega forystu, ekki síst í nýsköpun og verðmætasköpun sem tengist hinum ýmsu hliðargreinum sjávarútvegs. Möguleikar til aukinnar verðmætasköpunar eru gríðarlegir, sé rétt haldið á spilunum.
Fyrir utan greinargerð Daða Más, sem áður er nefnd, er skýrslan gagnleg lesning fyrir þingmenn og fjölmiðlunga. Öflug sjávarútvegsfyrirtæki á grunni fiskveiðistjórnunarkerfisins hafa verið uppspretta annarra auðlinda og til hafa orðið glæsileg fyrirtæki sem eiga rætur í þjónustu við sjávarútveg og eru leiðandi á sínu sviði í heiminum. Þannig hefur sjávarútvegur verið brimbrjótur tækniframfara og nýsköpunar á síðustu áratugum. En um það vilja þau sem sækja fram á grunni lýðhyggju ekki tala.
Er ekki kominn tími til þess að nálgast sjávarútveg með öðrum hætti en gert hefur verið. Spurningin sem stjórnmálamenn ættu að velta fyrir sér er hvað við getum gert til að styrkja íslenskan sjávarútveg í harðri alþjóðlegri samkeppni. Hvernig getum við lagað regluverkið? Hvernig getum stutt við arðsemi fyrirtækjanna og þannig aukið sameiginlegar tekjur og lagt grunn að enn meiri fjárfestingu í nýsköpun og þróun? Hvernig eru skattar og gjöld á sjávarútveg hér á landi borið saman við helstu samkeppnislönd? Með hvaða hætti getum við stuðlað að skráningu allra helstu sjávarútvegsfyrirtækja á hlutabréfamarkað og byggt undir beina þátttöku almennings í atvinnurekstri? Þetta eru sömu spurningar og eiga við um allrar aðrar atvinnugreinar.
Það er miður hve margir stjórnmálamenn veigra sér við að tala með stolti um glæsileg fyrirtæki sem byggð hafa verið upp af elju og hugviti í sjávarútvegi og tengdum greinum. Hræðslan við að samfagna þegar vel gengur í sjávarútvegi hefur náð yfirhöndinni. Föngum tortryggni og öfundar stendur stuggur af velgengni og dugmiklum framtaksmönnum. En það er ekkert nýtt.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. júlí 2022.