Af hverju klofna þjóðir?

Diljá Mist Einarsdóttir, alþingismaður:

Síðastliðna öld hefur framþróun mannréttinda verið kröftug og hröð víða um heim. Þar hafa vestræn ríki farið fremst í flokki. Ráðstafanir voru gerðar til verndar ýmsum minnihlutahópum og smám saman varð til alþjóðlegt kerfi til að tryggja þessi réttindi. Eftir hörmungar síðari heimsstyrjaldarinnar hófst öflugt mannréttindastarf Sameinuðu þjóðanna. Á síðari árum hafa fleiri stofnanir látið til sín taka í mannréttindamálum, m.a. við að aðstoða ríki t.a.m. í Austur-Evrópu sem hafa valið vestrænt lýðræði og mannréttindi umfram sósíalisma.

Undanfarin ár hefur orðið bakslag í þessari framþróun mannréttinda, m.a. í nágrannaríkjum okkar í Evrópu og sömuleiðis í Bandaríkjunum. Þetta bakslag er efni skoðanapistils ritstjóra Fréttablaðsins á dögunum. Þar segir hann „hyldjúpa gjá“ hafa myndast „á milli kristilegs afturhalds og frjálslyndra lýðræðisafla“. Næst tekur hann dæmi frá Bretlandi um „Brexit-lygavefinn“ þar sem þjóðin sé „klofin á milli unga fólksins sem þráir alþjóðasamvinnu og gamla fólksins sem neitar að horfast í augu við þá sannreynd að heimsveldið m[egi] muna sinn fífil fegurri – og [sé] ekki lengur sjálfbært.“ Ritstjórinn klykkir svo út með að það sé „með ólíkindum að Pólland og Ungverjaland heyri til sama lýðræðisbandalaginu og Þýskaland, Danmörk, Svíþjóð og Finnland“ þar sem það sé „langur vegur frá því að fyrrnefndu löndin og þau síðarnefndu deili sömu gildum“.

Bandaríkin hafa m.a. verið byggð á kristilegu íhaldi og amerísku frjálslyndi frá fyrstu tíð. Grunnhugsun lýðræðis og mannréttinda í sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna markaði þáttaskil í mannréttindabaráttu í heiminum og landinu hefur löngum verið lýst sem vel heppnuðum suðupotti (e. melting pot) ólíkrar menningar og viðhorfa.

Nú virðast þessi ólíku en áður sameinuðu ríki ekki ganga í takt og það er mikils um vert að þeim takist að finna aftur taktinn, að muna að það er miklu meira sem sameinar þau en sundrar.

Dæmið um Bretland í þessu samhengi er síðan efni í sérstaka grein og sömuleiðis þessi eilífðarþráhyggja um alþjóðasamvinnuna með greini, þennan eina möguleika sem sumir sjá í Evrópusambandinu. Bretland er enn þá í Evrópu og tekur virkan þátt í alþjóðasamvinnu, m.a. við Evrópuríki – þ.m.t. við Íslendinga. Samvinna okkar við Breta hefur í raun sjaldan verið betri og meiri.

Þegar kemur að aðstæðum í Þýskalandi og Finnlandi annars vegar og hins vegar í Póllandi og Ungverjalandi er ekki hægt að taka undir með því að það sé langur vegur frá sameiginlegu gildismati þessara þjóða. Hinn kristilegi demókrataflokkur frú Merkel er t.a.m. íhaldssamur þegar kemur að kyn- og frjósemisréttindum kvenna og samsamar sig þar eflaust meira pólskum skoðanasystkinum en norrænum, og þýsk löggjöf um fóstureyðingar er fremur ströng í sama samanburði. Þýskaland hefur heldur ekki verið í framlínunni þegar kemur að bættri réttarstöðu hinsegin fólks, m.a. vegna viðhorfa flokks Merkel. En ritstjórinn, eins og fleiri, sleppir Þýskalandi gegnum nálaraugað.

Evrópskar þjóðir eru eins misjafnar og þær eru margar og fólkið sem þær myndar sömuleiðis. Og Bandaríkin eru sannarlega suðupottur. Hvað hefur þá breyst frá því við, Sameinaðar þjóðir, lýstum því yfir að við trúðum á grundvallarréttindi fólks, bærum virðingu fyrir þeim – trúðum á jafnrétti allra? Er vandamálið e.t.v. m.a. það að við einblínum á það sem sundrar okkur og agnúumst út í þá sem eru ólíkir okkur, þá sem velja og aðhyllast annað en við sjálf? Að virðing fyrir fólki og frelsi þess takmarkist orðið við það fólk sem er nákvæmlega eins og við sjálf? Að valdhafar í víðasta skilningi loki augunum fyrir reiði og beiskju borgaranna og haldi fremur áfram að þrýsta öllum í sama mót? Að við séum hætt að hlusta, reyna að skilja – hætt að umbera?

Greinin birtist í Fréttablaðinu, 14. júlí 2022.