Bætt þjónusta og aukin skilvirkni hins opinbera
Það ber að halda áfram að bæta þjónustu ríkisstofnana enn frekar, auka skilvirkni, stuðla að sveigjanleika í skipulagi og framþróun og auðvelda stafræna þróun ríkisins. Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur sett á laggirnar starfshóp til þess að ná þessum markmiðum.
Talsverður árangur hefur náðst í einföldun stofnanakerfis undanfarin ár, en stofnanir ríkisins voru 250 talsins árið 1998 og 206 árið 2006. Þannig var skattamálum t.a.m. áður sinnt hjá á öðrum tug stofnana, en þau eru nú öll á einum stað, Skattinum, eftir að Embætti ríkisskattstjóra, Skattrannsóknarstjóra ríkisins og Tollstjóra voru sameinuð í eitt árin 2020 - 2021. Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið sameinuðust í eina stofnun um áramótin 2020/2021 auk þess sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur verið lögð niður og verkefni færð annað. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur tekið við hlutverki Mannvirkjastofnunar og Íbúðalánasjóðs, nokkrar stofnanir sameinuðust í Samgöngustofu og heilbrigðisumdæmi voru endurskilgreind og stofnanir sameinaðar.
Ríkisstjórnin samþykkti í júní sl. að fela fyrrnefndum starfshópi að undirbúa og hrinda í framkvæmd einföldun á stofnanakerfi ríkisins með það að markmiði að það verði burðugra, sveigjanlegra og hagkvæmara. Verkefnið verður unnið undir forystu ráðherranefndar um ríkisfjármál og fyrirhugað er að hópurinn skili niðurstöðum í haust.