Diljá Mist Einarsdóttir, alþingismaður:
Í liðinni viku var ég beðin að stýra fundi ungra í Varðbergi um stöðu öryggis- og varnarmála á Íslandi. Varðberg eru samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál sem hafa unnið ötullega að því að beita sér fyrir umræðum og kynningu á alþjóðamálum, sérstaklega í tengslum við öryggis- og varnarmál. Fundurinn var áhugaverður og þar sköpuðust líflegar umræður milli þátttakenda í pallborði, þeirra Baldurs Þórhallssonar, Björns Bjarnasonar og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Margt bar á góma en þátttakendur voru sammála um mikilvægi aðildar að NATO og varnarsamningsins við Bandaríkin og sömuleiðis um mikilvægi þess að Ísland tryggði viðbúnaðargetu í samræmi við skuldbindingar sínar í öryggis- og varnarmálum. Sérstaklega ber að hrósa ungum í Varðbergi fyrir að standa að fundinum og beita sér fyrir betri skilningi meðal ungs fólks á Íslandi á alþjóðamálum á viðsjárverðum tímum.
Í lok vikunnar ræddi ég síðan öryggis- og varnarmál og alþjóðamál í víðari skilningi við Baldur Þórhallsson og Björn Malmquist í Vikulokunum undir stjórn Sigríðar Daggar Auðunsdóttur. Þar ræddum við leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins, stöðuna í öryggis- og varnarmálum og Evrópusambandið. Einnig um stefnubreytingu Hæstaréttar Bandaríkjanna og voðaverkin í Ósló.
Um helgina fundaði utanríkismálanefnd Alþingis með bandarískum þingmönnum úr hermálanefnd fulltrúadeildar þingsins til að ræða stríðið í Úkraínu og breytta stöðu í öryggis- og varnarmálum. Það er ágætt að við þingmenn höfum nóg fyrir stafni í þinghléi. Enn ánægjulegra hversu mikið vitund og áhugi á utanríkismálum hefur aukist, þótt kveikjan sé auðvitað ekki jákvæð. Skammt er liðið frá því ég starfaði sem aðstoðarmaður ráðherra í utanríkisráðuneytinu og við fórum þá í sérstakt átak í upplýsingamiðlun um utanríkismál sem þá voru sjaldan í deiglunni. Nú er staðan gjörbreytt – það þurfti ekkert minna en stríð í Evrópu til þess að Íslendingar vöknuðu til lífsins í alþjóðamálum. Vonandi er sú vakning komin til að vera, en tilefnið að hverfa.
Nágranna- og samstarfsríki okkar hafa stóraukið útgjöld til öryggis- og varnarmála í takt við aukna spennu og óstöðugleika í umhverfi okkar. Undanfarin ár hafi þessi mál verið tekin alvarlega af utanríkisráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Varnarmálaskrifstofa ráðuneytisins var endurvakin, sérstök deild fjölþáttaógna stofnsett og ráðist hefur verið í umtalsverð viðhalds- og endurbótaverkefni á varnarmannvirkjum á öryggissvæðum. Við eigum að taka áfram virkan þátt í varnartengdum verkefnum og viðhalda varnarinnviðum okkar í samræmi við þjóðaröryggisstefnu Íslands. Almenningur fylgist nú grannt með að þar látum við ekki okkar eftir liggja.
Greinin birtist í Morgunblaðinu, 30. júní 2022.