Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Sjálfsagt verður deilan um tekjujöfnun skattkerfisins aldrei leidd til lykta. Vinstrisinnaðir stjórnmálamenn leggja áherslu á að nýta skattkerfið til tekjujöfnunar en gefa litla og á stundum villandi leiðsögn í því hversu langt eigi að ganga. Fæstir vilja að afkoma fólks sé að fullu jöfnuð enda augljóst að slíkt hefði skelfilegar afleiðingar – dregið er úr öllum hvötum þar sem dugnaður, útsjónarsemi, menntun og ábyrgð eru í raun gerð upptæk af hinu opinbera.
Í dægurþrasi íslenskra stjórnmála eru raddir vinstrimanna háværar um nauðsyn þess að auka jöfnunarhlutverk skattkerfisins – í þeirri viðleitni að jafna lífskjörin meira en gert er. Hversu langt á að ganga er óljóst og raunar læðist að mér sá grunur að þeir sem hæst tala um aukinn jöfnuð í gegnum skattakerfið viti það ekki heldur. Eitt er þó á hreinu: Aukið jöfnunarhlutverk felst ekki í því að lækka opinberar álögur – þvert á móti. Skattar skulu hækkaðir í nafni jöfnuðar.
Á stundum öfunda ég vinstrimenn fyrir það hve sannfærðir þeir eru við að boða einfalda lausn á flestum vandamálum, allt frá rekstri ríkissjóðs til jöfnunar lífskjara. Í skattagleðinni er áherslan lögð á að stækka sneið hins opinbera af þjóðarkökunni en ekki að stækka kökuna sjálfa. Því meiri samneysla (útgjöld ríkis og sveitarfélaga) sem hlutfall af landsframleiðslunni (sneiðin af þjóðarkökunni), því meiri er velferðin í fyrirmyndarríki vinstrimanna. Stærð þjóðarkökunnar skiptir minna máli en hversu stóra sneið hið opinbera tekur af henni. Vinstri velferðin er meiri þegar samneyslan er 50% af 1.500 milljarða þjóðarframleiðslu en ef ríki og sveitarfélög taka „aðeins“ til sín 40% af 2.000 milljörðum. Engu skiptir þótt útgjöld (tekjur) hins opinbera séu 50 milljörðum meiri (800 í stað 750) þegar kakan er stærri.
Margaret Thatcher orðaði þetta svo, að vinstrimenn vilji jafna kjörin niður á við – hægri menn vilji bæta kjör allra. Ég óttast að í huga margra vinstrimanna – ekki síst sannfærðra sósíalista – sé jöfnuður niður á við æskilegri en bætt lífskjör allra.
Það fer kaldur hrollur niður hrygg vinstrimanna þegar við hægrimenn ræðum um nauðsyn þess að langtímaáætlun í ríkisfjármálum miði að því að aukinn hluti hagvaxtar verði eftir í vösum einstaklinganna. Með því verður hlutfallsleg stærð ríkissamneyslunnar af þjóðarkökunni minni þegar kakan stækkar. Kökusneið ríkisins verður þrátt fyrir það stærri.
76% hlutdeild í sköttum
Upplýsingar um álagningu skatta eftir tekjutíundum sem fjármála- og efnahagsráðuneytið birti í liðinni viku draga vonandi eitthvað úr áhyggjum vinstrimanna. Fjórar efstu tekjutíundirnar (þeir sem hæstu tekjurnar hafa) greiddu um 76% þeirra skatta sem lagðir voru á tekjur einstaklinga á liðnu ári.
Á síðasta ári námu heildartekjur einstaklinga um 2.256 milljörðum króna og af þeim greiddu þeir 523 milljarða í formi tekjuskatts, útsvars og fjármagnstekjuskatts. Samkvæmt upplýsingum fjármálaráðuneytisins var hlutdeild efstu tekjutíundarinnar, sem var með 29% af heildartekjunum, 36% af heildarskatttekjum. Neðstu fimm tekjutíundirnar greiddu 13% af heildarútsvari og 4% af öllum tekjuskatti og samtals 17% af heildarskatttekjum. Fjármagnstekjur voru hverfandi.
Tekjujöfnun er því greinilega mikil innan skattkerfisins og illa verður séð hvernig það verður aukið, nema með því að sífellt fleiri verði undanþegnir skattgreiðslum.
Augljóst er að tekjuskattsbreytingar á síðustu árum (m.a. með nýju lægra skattþrepi) hafa létt skattbyrði þeirra sem eru með lágar og meðaltekjur. (Ég ætla ekki að ræða um efasemdir mínar um ágæti margþrepa skattkerfis enda gert það áður og mun gera síðar.) Eins og sést á meðfylgjandi súluriti minnkaði skattbyrði allra tekjuhópa, fyrir utan þeirra sem hæstu launin hafa, á milli áranna 2019 og 2021. Ástæða þess að breyting mælist ekki hjá lægstu tekjutíundinni er sú að tekjur eru undir skattleysismörkum.
Erfiðir kjarasamningar
Skattkerfisbreytingar, skynsamlegir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði og góð stjórn efnahagsmála hafa tryggt gríðarlega kaupmáttaraukningu allra tekjuhópa síðasta áratuginn. Meðalhækkun heildartekna frá 2010 nemur 38% á verðlagi ársins 2021. Á liðnu ári jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna að meðaltali um 5,1% – langmest hjá þeim sem eru með lægstu tekjurnar.
Öllum má vera ljóst að komandi kjarasamningar verða ekki einfaldir. Samkvæmt venju munu samningsaðilar gera margvíslegar kröfur á ríkisvaldið. Auðvitað getur ríkisstjórnin með stuðningi meirihluta þingsins létt undir með samningsaðilum og þá ekki aðeins er kemur að húsnæðismálum, þótt meginregla verði að vera sú að aðilar vinnumarkaðarins beri ábyrgð á eigin samningum. Hið opinbera getur hins vegar lagt sitt af mörkum við að verja kaupmátt ráðstöfunartekna til lengri tíma, ekki síst með því að lofa launafólki og fyrirtækjum að halda eftir stærstum hluta þess hagvaxtarauka sem kann að vera á komandi árum. (Þetta heitir að slaka aðeins á klónni.)
Á næstu misserum skiptir mestu að verja þann mikla kaupmátt sem náðst hefur á síðustu árum, ekki síst hjá launafólki með meðaltekjur og lægri. Það verður ekki gert með öðrum hætti en með öflugu og arðsömu atvinnulífi og a.m.k. sæmilegri hófsemd í opinberum álögum, samhliða aðhaldssamri peningastefnu og aga í opinberum fjármálum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. júní 2022.