Þau sögulegu tíðindi urðu í gær að aðildarumsóknir Finna og Svía að NATO voru samþykktar af öllum aðildarríkjum bandalagsins. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hefur leitt vinnuna fyrir Íslands hönd.
Á facebook-síðu sinni í dag segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, að skrefið sé til marks um samstöðu um grundavallarhugsjónir landa í okkar heimhluta. Þá rifjar hann upp við þessi tímamót orð úr ræðu dr. Bjarna Benediktssonar, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins og þáverandi utanríkisráðherra, við undirritun Norður-Atlantshafssáttmálans í Washington DC 4. apríl 1949 sem hann segir að eigi jafnt við í dag og fyrir 73 árum síðan:
„Við viljum einnig láta það koma alveg ótvírætt fram, að við tilheyrum og viljum tilheyra því frjálsa samfélagi frjálsra þjóða, sem nú er formlega verið að stofna. Að vísu er það rétt, sem ég sagði áðan, að aðilar þessa samnings eru ólíkir um margt, en það er einnig margt sem sameinar okkur traustum böndum.
Sama hættan ógnar okkur öllum. Í þeim heimi sem við lifum, þar sem fjarlægðirnar eru horfnar, er áreiðanlegt að annað hvort njóta allir friðar eða enginn. Sömu upplausnaröflin eru hvarvetna að sinni ömurlegu iðju. Allsstaðar ásaka þau okkur, sem erum að vinna fyrir friðinn, um að við viljum spilla honum.”