Á liðnu vori lögðu íslensk stjórnvöld sitt af mörkum við að styðja Úkraínu í kjölfar innrásar Rússlands inn í landið. Ísland veitir einarðan stuðning á alþjóðavettvangi við lýðræðisleg gildi, mannréttindi, viðskiptafrelsi og að alþjóðalög séu virt. Enda á Ísland allt sitt undir því að fullveldi þjóða sé virt og því er mikilvægt að íslensk stjórnvöld sýni stuðning sinn í verki.
Liður í þessum stuðningi var að vera meðal fyrstu þjóða í að styðja umsókn Svíþjóðar og Finnlands að Atlantshafsbandalaginu. Milljarður var veittur í mannúðaraðstoð og fjárhagsaðstoð til Úkraínsku þjóðarinnar auk þess sem aðstoð var veitt við að efla varnir landsins. Einnig var lagt fram frumvarp á síðustu dögum þingsins sem felur í sér afnám tolla á vörum sem eru alfarið framleiddar í Úkraínu. Á liðnu þingi ávarpaði Vladimír Selenskí, forseti Úkraínu, Alþingi, en það mun hafa verið í fyrsta sinn sem erlendur þjóðhöfðingi ávarpar Alþingi Íslendinga.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, ávarpaði Alþingi þar að auki í eldhúsdagsumræðum þar sem hún lýsti sameiginlegum hagsmunum Íslands og Úkraínu í ýmsu tilliti og undirstrikaði mikilvægi þess að Íslendingar stæðu með Úkraínumönnum.