Alþingi samþykkti í gær fjármálaáætlun Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, fyrir árin 2023-2027. Að því er fram kemur í nefndaráliti um fjármálaáætlun er verðbólgan helsta ógnin við heimili og fyrirtæki, en efnahagshorfur í heiminum fara versnandi vegna hennar. Þá lætur styrjöldin í Úkraínu enga þjóð ósnortna.
Eftir mikinn vöxt í útgjöldum hins opinbera á liðnum árum standa stjórnvöld nú frammi fyrir því verkefni að leita allra leiða til að nýta þá fjármuni sem best svo sem með endurskoðun útgjalda og stafrænni þróun frekar en að ýta undir spennuna í hagkerfinu með áframhaldandi útgjaldavexti.
Á liðnu kjörtímabili var sérstök áhersla lögð á að létta skattbyrði á tekjulága einstaklinga á sama tíma og skatttekjur ríkisins jukust samhliða vexti hagkerfisins. Við fall WOW air árið 2019 og heimsfaraldur kórónuveiru í kjölfarið drógust skatttekjur saman. Þær efnahagsaðgerðir sem stjórnvöld réðust í ásamt þróttmiklu atvinnulífi hafa gert samfélaginu kleift að ná kröftugri viðspyrnu þar sem skatttekjur ríkisins nálgast sögulegt meðaltal, ef frá eru taldar lækkandi skatttekjur af ökutækjum og eldsneyti. Tekjustofnar nálgast því fyrri styrk fyrr en gert var ráð fyrir.
Nú blasir við nýr veruleiki þar sem draga þarf úr spennu í hagkerfinu til að verja kaupmátt og ráðstöfunartekjur og þar má hið opinbera ekki láta sitt eftir liggja. Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir áframhaldandi vexti ríkisútgjalda sem er þó talsvert hægari en verið hefur undanfarin ár. Í þessu felst ákveðið aðhald sem kallar á skýra forgangsröðun útgjalda á komandi árum.
Hér er að finna nánari upplýsingar um fjármálaáætlun fyrir árin 2023-2027.