Leggur til tímabundin tollfrjáls viðskipti með vörur frá Úkraínu
'}}

Bjarni Bene­dikts­son fjár­málaráðherra mælti nýverið fyr­ir frum­varpi til breyt­inga á tolla­lög­um. Verði frumvarpið að lögum verða tollar á vörur sem að öllu leyti eru upprunnar í Úkraínu tímabundið felldir niður til 31. maí 2023.

Með frumvarpinu er verið að bregðast við óskum Úkraínustjórnar um að bæta tollafríðindi Úkraínu við ríki Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) umfram það sem nú er í gildi vegna innrásar Rússa inn í landið.

Úkraína hefur nú þegar einhliða fellt niður tolla á allar vörur sem fluttar eru inn á sitt yfirráðasvæði í þeim tilgangi að ýta undir viðskipti.

„Verði frum­varp þetta að lög­um gæti það leitt til þess að flutt­ar yrðu til Íslands land­búnaðar­vör­ur frá Úkraínu í meira mæli en nú er, sem gæti haft nei­kvæð áhrif á verð og/​eða fram­boð ís­lenskra land­búnaðar­vara. Þar ber einkum að nefna mjólk­ur­duft en mögu­legt er að af slík­um inn­flutn­ingi geti orðið. Ekki er talið lík­legt að flutt verði inn kjúk­linga­kjöt eða egg þar sem flutn­ings­vega­lengd er mik­il. Af sömu ástæðum er ekki lík­legt að flutt­ar yrðu inn unn­ar kjötvör­ur, þótt ekki sé hægt að úti­loka slíkt,“ seg­ir í grein­ar­gerð með frumvarpinu.