Ásmundur Friðriksson alþingismaður:
Allur heimurinn er að bregðast við afleiðingum stríðsátakanna í Úkraínu með því að auka matvælaframleiðslu innanlands, en hvar stöndum við á Íslandi? Fjölmargar þjóðir hafa nú þegar lagt til aukið fjármagn til landbúnaðar til að koma í veg fyrir hrun í matvælaframleiðslu. Kostnaðarhækkanir á innfluttu hráefni eru langt umfram það sem eðlilegt er að velta yfir á neytendur. Það þarf viðbótarfjármagn við þær 700 milljónir króna sem settar voru í landbúnaðinn til að bregðast við allt að 120% áburðarverðshækkunum í byrjun árs. Þær hækkanir voru aðeins forsmekkurinn að því sem síðar kom.
Finnar styrkja landbúnað og sjávarútveg
Í liðnum aprílmánuði ákvað finnska ráðherranefndin sem fjallar um neyðarviðbúnað að setja 300 milljónir evra til styrktar innlendri matvælaframleiðslu. Neyðarpakkinn inniheldur m.a. greiðslur til að styðja við lausafjárstöðu bænda og langtímaaðgerðir innanlands. Yfir 27 milljónum evra var varið til byggingar á eldishúsum, gróðurhúsum, geymslum fyrir grænmetis- og garðyrkjuafurðir, stuðning við hreindýrarækt og sjávarútveg. Það vekur athygli Íslendinga að nágrannaþjóðirnar styrki sjávarútveg, sem hér er sérstaklega skattlagður. Þá var 45 milljónum evra varið til lækkunar á orkuskatti og í raun allt gert til að styrkja og auka matvælaframleiðslu innanlands.
Það er lán Íslendinga að vera ekki hluti af raforkumarkaði Evrópusambandsins en miklar hækkanir á raforku ganga nærri fjárhag heimila og atvinnulífs í sambandinu. Á Íslandi standa heimilin og atvinnulífið styrkari fótum með stöðugt raforkuverð þegar aðrar innfluttar kostnaðarhækkanir dynja á þjóðinni þrátt fyrir verulega styrkingu krónunnar.
Norðmenn bæta kjör bænda
Í Noregi hafa bændur og stjórnvöld nýlega lokið samningaviðræðum um landbúnaðarstuðning fyrir 2022-2023. Síðustu ár hafa norskir bændur setið eftir í tekjuþróun samanborið við aðrar greinar í landinu en núna hafa norsk stjórnvöld komið til móts við bændur og bæta þeim versnandi kjör síðustu ára. Þeim kostnaðarauka sem nú blasir við bændum í Noregi er að fullu mætt með hærra afurðaverði og opinberum stuðningi (90% tekin í gegnum aukinn stuðning með styrkingu búvörusamninga og 10% með hækkun afurðaverðs). Með þessum ráðstöfunum mun stuðningur við norska bændur aukast um 10,9 milljarða norskra króna og hækkun afurða 1,5 milljarða norskra króna á samningstímabilinu.
Viðspyrnuaðgerðir fyrir bændur
En hvað geta stjórnvöld hér á landi gert til að treysta fæðuöryggi þjóðarinnar? Væri það ekki góð hugmynd að skoða viðspyrnuaðgerðir fyrir landbúnaðinn líkt og gert var í kórónuveirufaraldrinum, en nú til að lækka kostnað sem lagst hefur á matvælaframleiðsluna í landinu vegna stríðsaðgerða Rússa í Úkraínu? Í byggingariðnaði er þeim kostnaði óhikað velt út í verðlagið, á herðar neytendum.
Með því að fara að hætti Norðmanna mætti koma í veg fyrir hækkanir til neytenda og þeir bændur sem hafa þurft að taka á sig auknar hækkanir fái þær bættar en komist hjá því að velta þeim út í verðlagið. Það mun líka gera bændum auðveldara í samkeppni að mæta undirboðum innfluttra landbúnaðarafurða. Það á að vera stefna stjórnvalda að auka og treysta matvælaframleiðslu í landinu. Það er hluti af þeim kostnaði að vera frjáls og fullvalda þjóð.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. júní 2022.