Þegar neyðin er stærst

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra:

Síðari heims­styrj­öld­in skildi stór­an hluta Evr­ópu í rúst. Eyðilegg­ing innviða, geig­væn­legt mann­fall og von­leysi al­menn­ings í kjöl­far átak­anna voru ekki burðugur vís­ir að bjart­ari tím­um. Engu að síður var end­ur­reisn­in í kjöl­far stríðsins æv­in­týra­lega hröð og inn­an ör­fárra ára höfðu lönd Vest­ur-Evr­ópu end­ur­heimt stöðu sína sem leiðandi sam­fé­lög hvað varðar verðmæta­sköp­un og lífs­gæði. Þessi saga hefði getað orðið allt önn­ur og lík­lega réð miklu af­drifa­rík ákvörðun Banda­ríkja­manna um veg­leg­an stuðning við end­urupp­bygg­ing­una miklu.

Nú um helg­ina var þess minnst að 75 ár voru liðin frá því að Geor­ge C. Mars­hall, þáver­andi ut­an­rík­is­ráðherra Banda­ríkj­anna, kynnti metnaðarfulla efna­hagsaðstoð sem æ síðan hef­ur verið við hann kennd. Óhætt er að segja að Mars­halláætl­un­in hafi skipt sköp­um fyr­ir þær sex­tán þjóðir sem þáðu boð um þátt­töku. Með því mörkuðu þær leið frá þeirri ein­angr­un­ar­sinnuðu efna­hags­stefnu áætl­un­ar- og sjálfs­nægta­bú­skap­ar sem ein­kennt hafði viðskipta­líf í Evr­ópu fyr­ir stríð. Um leið tóku þær ákveðin skref í átt að auknu sam­starfi þjóða á viðskipta­sviðinu og al­mennri vel­meg­un. Sú fram­sýna og glögga hugs­un Mars­halls, að það væri Banda­ríkj­un­um mik­il­vægt að Evr­ópu gengi vel, var framúrsk­ar­andi dæmi um það þegar hug­sjón­ir og hags­mun­ir fara sam­an.

Mars­halláætl­un­in fól ekki ein­ung­is í sér fjár­hags­leg­an stuðning held­ur var hún póli­tísk í eðli sínu. Með þátt­töku var þeim ríkj­um sem voru með forðað frá því að falla und­ir þung­an hramm Sov­ét­komm­ún­ism­ans. Ekki voru öll ríki svo lán­söm að eiga þess kost að grípa það tæki­færi sem í Mars­hallaðstoðinni fólst. Upp­runa mik­il­væg­ustu sam­starfs­stofn­ana Vest­ur­landa, þar á meðal Atlants­hafs­banda­lags­ins, má rekja til þeirra hug­mynda sem lagðar voru til grund­vall­ar Mars­halláætl­un­inni. Um var að ræða fjár­fest­ingu í friði og hún átti eft­ir að reyn­ast dýr­mæt í mörg­um skiln­ingi.

Fyr­ir okk­ur Íslend­inga var þátt­tak­an í Mars­halláætl­un­inni lyk­ilþátt­ur í því vaxt­ar­skeiði sem ein­kenndi eft­ir­stríðsár­in en fram að því hafði ástandið verið erfitt hér sem ann­ars staðar. Á ár­un­um 1948-1953 hlut­um við efna­hagsaðstoð sem nam 38,6 millj­ón­um banda­ríkja­dala. Fjár­fest var í tog­ur­um, drátt­ar­bát­um og land­búnaðar­vél­um og áætl­un­in gerði okk­ur einnig kleift að ráðast í ýmis stærri verk­efni, svo sem Sogs­virkj­un, Laxár­virkj­un, áburðar­verk­smiðjuna í Gufu­nesi, steypu­verk­smiðju og hraðfrysti­hús.

Það er kunn­ara en frá þurfi að segja að Evr­ópa er enn á ný vett­vang­ur blóðugs stríðs sem nú þegar hef­ur haft var­an­leg áhrif á ör­ygg­is­um­hverfi gerv­allr­ar álf­unn­ar. Í dag hefst hér í Reykja­vík varn­ar­málaráðherra­fund­ur Norður­hóps­ins, sam­ráðsvett­vangs tólf líkt þenkj­andi ríkja um ör­ygg­is- og varn­ar­mál, þar sem inn­rás Rússa í Úkraínu og af­leiðing­ar henn­ar verða í brenni­depli. Í tengsl­um við fund­inn, tök­um við Ben Wallace, varn­ar­málaráðherra Bret­lands, þátt í op­inni mál­stofu síðdeg­is þar sem Mars­halláætl­un­in og lær­dóm­ur­inn af henni verða meðal ann­ars til um­fjöll­un­ar.

Það er ekki að ástæðulausu að nú sé talað um að huga þurfi að „nýrri Mars­halláætl­un“ fyr­ir Úkraínu. Sag­an sýn­ir nefni­lega að áætl­un­in skipti geysi­legu máli fyr­ir þær þjóðir sem hana hlutu og kem­ur ekki á óvart að gripið sé til slíkra sögu­vís­ana við þær aðstæður sem uppi eru. Inn­rás­in hef­ur ekki aðeins leitt óbæri­leg­ar hörm­ung­ar yfir úkraínsku þjóðina held­ur beint sjón­um að þeim sam­eig­in­legu gild­um Evr­ópu­ríkja um mann­rétt­indi og lýðræði sem raun­veru­lega eru und­ir á víg­vell­in­um í Úkraínu. Því skipt­ir sköp­um að stutt sé við Úkraínu með ráðum og dáð, rétt eins og gert var í þágu stríðshrjáðra þjóða fyr­ir rétt­um 75 árum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. júní 2022.