Að gefnu tilefni
'}}

Ragnar Sigurðsson, oddviti í Fjarðarbyggð

Talsverðar umræður hafa verið í kjölfar sveitarstjórnarkosninga í Fjarðabyggð um meirihlutaviðræður Fjarðalistans og Framsóknarflokksins. Sitt sýnist hverjum eins og eðlilegt er.

Ýmsar sögusagnir eru á kreiki um það hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki verið aðili að meirihlutaviðræðum. Svo virðist sem framsóknararmur vinstribandalagsins varpi fram fjölmörgum kenningum eða tylliástæðum fyrir því að viðræður þess flokks og Sjálfstæðisflokksins „sigldu í strand“. Þessum kenningum og tylliástæðum er öllum auðsvarað, engar viðræður áttu sér stað.

Sjálfstæðisflokkurinn átti einn óformlegan fund með Framsóknarflokknum þar sem farið var yfir kosningarnar, hugmyndir og áherslur. Ekkert samtal átti sér stað um kröfur flokkanna sem grundvöll fyrir meirihlutasamstarfi, tilraunir til málamyndunar eða neitt sem eðli samræðna nær til. Í raun kom ekkert upp í samtölum Sjálfstæðisflokksins við Framsókn né Fjarðalistann sem gaf tilefni til að ætla að erfitt væri að mynda sterkan meirihluta með Sjálfstæðisflokknum og fylgja eftir skýru umboði til breytinga og góðra verka.

Þrátt fyrir það var niðurstaða Framsóknar og Fjarðalistans að ekki væri tilefni til að fara í frekara samtal við okkur þar sem meirihlutinn hefði fengið nægt fylgi til að halda saman, þrátt fyrir fylgishrun Fjarðalistans.

Að ganga óbundin til kosninga

Það er nokkuð augljóst að búið var að ganga frá samkomulagi um að halda áfram meirihlutasamstarfinu fyrir kosningar ef meirihlutinn héldi velli. Undirritaður hefur ekkert við slíkt bandalag að athuga sé það opinberað fyrir kosningar. Skilaboð flokkanna til kjósenda í kosningabaráttunni voru hins vegar þau að flokkarnir gengu óbundnir til kosninga, sú var ekki raunin. Einskær vilji var til að útiloka Sjálfstæðisflokkinn frá samtali um meirihlutasamstarf og engar tilraunir eða viðleitni til samstarfs. Það auk úrslit kosninganna og yfirlýsingar um að samstarf bandalagsins á síðasta kjörtímabili hafði gengið vel opinberar kosningabandalag Framsóknar og Fjarðalista.

Í raun gekk samstarf síðasta meirihluta svo vel að Sjálfstæðisflokkurinn vann sögulegan stórsigur og stærri sigur en árið 2010 en í þeim kosningum hélt einnig meirihluti Framsóknar og Fjarðalista. Á þeim tíma voru það skilaboð þáverandi oddvita Fjarðalistans að eðlilegast væri að sigurvegari kosninganna fengi tækifæri til að mynda meirihluta, það er af sem áður var í þeim efnum og eðlilegt að fólk velti því fyrir sér hvað búi þar að baki.

Sjálfstæðisflokkurinn – leiðandi afl

Markmið Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð í nýafstöðnum kosningum var að ná þeim sess að vera leiðandi stjórnmálaafl í sveitarfélaginu. Því markmiði náðum við með glæsibrag. Því er til að þakka dyggum stuðningi kjósenda í Fjarðabyggð, öflugri og hófsamri stefnuskrá og frambærilegum framboðslista. Okkar sjónarmið fengu góðan hljómgrunn sem skilar okkur flestum fulltrúum allra flokka í bæjarstjórn og í málefnanefndum sveitarfélagsins. Við munum ekki bregðast trausti kjósenda okkar og ákalli samfélagsins eftir breytingum. Við munum vinna að framgangi þeirra mála sem við lögðum á oddinn í kosningabaráttunni, veita kröftugt aðhald og auka samráð við íbúa.

Í fyrsta skipti í sögu Fjarðabyggðar mun stærsti flokkurinn verða í minnihluta innan bæjarstjórnar en það mun sannarlega ekki verða neinn minnihlutabragur á okkur á þessu kjörtímabili, því getum við lofað.

Austurfréttir, 2. júní. 2022.