Sjálfstæðisflokkur í meirihluta í Grindavík
'}}

Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn og Rödd unga fólksins hafa myndað nýjan meirihluta í Grindavík.

Í tilkynningu frá flokkunum kemur fram að nýr forseti bæjarstjórnar verði Ásrún H. Kristinsdóttir frá Framsóknarflokknum til að byrja með. Þriðja ár kjörtímabilisins taki Helga Dís Jakobsdóttir, fulltrúi Raddar unga fólksins, við embættinu. Formaður bæjarráðs verður Hjálmar Hallgrímsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Fannar Jónasson bæjarstjóri verður endurráðinn.

Málefnasamningurinn verður birtur að loknum fyrsta bæjarstjórnarfundi nýrrar bæjarstjórnar sem fram fer þriðjudaginn 7. júní.

Áframhaldandi áhersla er sögð verða lögð á góða samvinnu fulltrúa í bæjarstjórn og að allir séu vel upplýstir um mál sem koma til umfjöllunar og eða afgreiðslu.

Framundan séu metnaðarfull verkefni sem unnin verða í góðu samstarfi bæjarfulltrúa og íbúa Grindavíkurbæjar. Grindavík sé gott bæjarfélag en mikilvægt verði að hugsa til framtíðar og stefna hátt til að gera góðan bæ enn betri. Nauðsynlegt sé að styðja við uppbyggingu innviða og þjónustustigs í samræmi við íbúafjölda.