Ásdís Kristjánsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi og Orri Hlöðversson oddviti Framsóknarflokks hafa skrifað undir málefnasamning um meirihlutasamstarf flokkanna tveggja í Kópavogi. Ásdís er fyrsta konan í sögu Sjálfstæðisflokksins sem gegnir embætti bæjarstjóra í Kópavogi. Hún er fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Áttaviti til árangurs
Samstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks byggir á því að gera öflugt samfélag enn betra og eru línurnar lagðar í sáttmálanum: Áttaviti til árangurs. Leiðarstefið er að Kópavogur verði áfram farsælt bæjarfélag í fremstu röð.
Áherslan er á að byggja upp kröftugt samfélag með auknu samráði og bættu upplýsingaflæði. Áfram verður staðið vörð um traustan rekstur enda forsenda þess að unnt sé að veita sveigjanlega og framúrskarandi þjónustu sem mætir þörfum íbúa. Frekari skuldsetningu bæjarins verður stillt í hóf og lán eingöngu tekin til fjármögnunar brýnna og arðbærra verkefna. Leitað verður leiða til að fylgja fjármagni bæjarins betur eftir þannig að rými skapist til að lækka álögur og tryggja áframhaldandi uppbyggingu innviða.
Það er mikilvægt að vanda vel til verka þegar kemur að skipulags-, samgöngu- og umhverfismálum við uppbyggingu næstu ára og áratuga. Þétting byggðar, vistvænir ferðamátar, greið og skilvirk umferð og virðing gagnvart umhverfinu leika þar lykilhlutverk.
Góð menntun gegnir lykilhlutverki í samfélaginu. Rík áhersla verður lögð á að skólar í Kópavogi verði áfram í fremstu röð með áframhaldandi framþróun á sviði tækni og nýsköpunar.
Hér eru aðeins talin nokkur áherslumál flokkanna en málefnasamninginn í heild sinni og þau verkefni sem sett verða í forgang á kjörtímabilinu má nálgast hér.