Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á Akranesi hafa komist að samkomulagi um myndun nýs meirihluta í bæjarstjórn Akraneskaupstaðar.
Málefnasamningur meirihlutans hefur verið samþykktur. Í inngangi hans segir að leitast verði við að eiga gott samstarf við alla flokka í bæjarstjórn og að stjórnsýslan muni snúist um að veita íbúunum góða þjónustu með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Þá verði lögð áhersla á gott samstarf við íbúa og áframhaldandi uppbyggingu og þróun á virku íbúalýðræði og áfram unnið að því að styrkja fjárhagsstöðu bæjarsjóðs.
Líf Lárusdóttir oddviti Sjálfstæðisflokks verður formaður bæjarráðs og verður þar með yngst til að gegna því embætti frá stofnun kaupstaðarins en Líf er einungis þrjátíu ára. Valgarður Lyngdal Jónsson verður forseti bæjarstjórnar. Þá hafa flokkarnir ákveðið að endurnýja samning við Sævar Frey Þráinsson um að gegna starfi bæjarstjóra. Þá mun Samfylkingin fara með formennsku í velferðar- og mannréttindaráði og mennta- og menningarráði en Sjálfstæðisflokkurinn verður með formennsku í skipulags- og umhverfisráði.