Diljá Mist Einarsdóttir, alþingismaður:
Sameiginleg þingmannanefnd EES (Evrópska efnahagssvæðisins) fundaði með fulltrúum frá Evrópusambandinu í Osló í liðinni viku. Alþingi á fimm fulltrúa í nefndinni. Fundinum var stýrt sameiginlega af fulltrúa Íslands fyrir hönd EFTA og fulltrúa Evrópuþingsins. Á fundinum fóru nefndarmenn frá Íslandi, Liechtenstein, Noregi og fulltrúar ESB og Sviss, yfir það sem hæst hefur borið í EES-samstarfinu að undanförnu og það sem fram undan er.
Stríðið í Úkraínu var fundarmönnum auðvitað ofarlega í huga og við ræddum náið samstarf Evrópuþjóða undanfarna mánuði. Mikil samstaða hefur ríkt um aðgerðir og skyldu Evrópuþjóða í þessum efnum, ekki síst eftir að stefnubreyting varð hjá forystumönnum í ESB varðandi náin viðskipta- og hagsmunatengsl þeirra við rússnesk stjórnvöld.
Á fundinum var samhliða rætt um umhverfis- og orkumál, enda óumdeilt að þetta eru tvær hliðar á sama peningnum. Nágranna- og vinaþjóðir okkar hafa áttað sig á mikilvægi orkuskipta fyrir loftslagsmálin og það var áhugavert að fá kynningu á orkuframleiðslu og öðrum loftslagstengdum verkefnum sem norsk fyrirtæki hafa ráðist í.
Stöðug þróun EES-samstarfsins er forsenda þess að geta brugðist við áskorunum sem fylgja síbreytilegum heimi. Samstarf Evrópuþjóða stendur frammi fyrir mörgum úrlausnarefnum og jafnframt tækifærum. Það er því mikilvægt að eiga reglulega umræður um stöðu EES-samstarfsins og svo auðvitað um framtíðina og í hvaða átt við viljum halda.
Ávinningur Íslands af aðildinni að EES-samstarfinu er óumdeildur og samningurinn er okkar mikilvægasti viðskiptasamningur. Það er hins vegar afskaplega mikilvægt að halda uppi öflugri hagsmunagæslu innan samstarfsins líkt og Sjálfstæðismenn hafa lagt áherslu á í utanríkisráðuneytinu. Það mun enda enginn gera það fyrir okkur. Með samstarfinu er hægt að auka samvinnu við aðildarríki ESB enn frekar til hagsbóta fyrir Ísland, meðal annars fyrir rannsókna- og vísindasamfélagið og íslenskt atvinnulíf. Það er því ánægjulegt að fá að koma að öflugri hagsmunagæslu innan EES sem þingmaður fyrir Íslands hönd. Hér áður hefur komið fyrir að Íslandi hafi láðst að gæta hagsmuna sinna. Slíkt sinnuleysi getur verið dýrkeypt.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 26. maí 2022