Oddvitar B- og D- lista í sveitarstjórn Múlaþings hafa undirritað samkomulag um myndun meirihluta fyrir komandi kjörtímabil. Í samkomulaginu er kveðið á um fjölmörg áhersluatriði við stjórn og rekstur sveitarfélagsins næstu fjögur ár auk áhersluatriða í samskiptum við ríkisvaldið um uppbyggingu þjónustu við íbúa sveitarfélagsins.
Berglind Harpa Svavarsdóttir, oddviti D- lista, verður formaður byggðarráðs og Jónína Brynjólfsdóttir, oddviti B- lista, verður forseti sveitarstjórnar. Gengið verður til samninga við Björn Ingimarsson sveitarstjóra um að gegna starfinu áfram.
Lögð verður áhersla á að vinna áfram að því að byggja upp stjórnsýslu Múlaþings, með áherslu á gott samtal við íbúa í öllum byggðakjörnum, samlegð í rekstri, betri nýtingu fjármuna og bættri þjónustu við íbúa m.a. með aukinni sérhæfingu starfsfólks, áherslu á rafrænar lausnir og styttingu boðleiða. Gert er ráð fyrir að þróa áfram heimastjórnir hvers byggðarkjarna og þeim ætlað framkvæmdafé til smærri samfélagsverkefna þar sem íbúar komi beint að forgangsröðun.