Sögulegur meirihluti í Hafnarfirði
'}}

Rósa Guðbjartsdóttir brýtur blað í sögu Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði með því að verða fyrsti bæjarstjóri flokksins sem heldur stöðu sinni eftir kosningar. Þá er þetta í annað sinn sem Sjálfstæðisflokkurinn er í meirihluta í bæjarstjórn þrjú kjörtímabil í röð. Slíkt gerðist áður á áttunda áratug síðustu aldar þegar Árni Grétar Finnsson leiddi flokkinn í Hafnarfirði.

Rósa mun halda embætti sínu sem bæj­ar­stjóri til 1. janú­ar 2025 en þá mun Valdi­mar Víðis­son, odd­viti Fram­sókn­ar­flokks­ins, taka við starf­inu. Þangað til verður hann formaður bæj­ar­ráðs. Krist­inn And­er­sen verður for­seti bæj­ar­stjórn­ar í Hafnar­f­irði út kjör­tíma­bilið.

Unnið er að mál­efna­samn­ingi flokk­anna sem verður kynnt­ur á næstu dög­um, að því er fram kem­ur í sam­eig­in­legri til­kynn­ingu flokk­anna.

Þar seg­ir einnig að helstu verk­efni nýs meiri­hluta verði að und­ir­búa þá miklu íbúa­fjölg­un sem er framund­an, stuðla að upp­bygg­ingu íbúðar­hús­næðis og tryggja þjón­ustu og vel­ferð fyr­ir alla ald­urs­hópa.