Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Í stjórnmálum skiptast á skin og skúrir, líkt og í lífinu sjálfu. Niðurstaða sveitarstjórnarkosninganna síðastliðinn laugardag var ekki sérstakt tilefni til mikils fagnaðar fyrir Sjálfstæðismenn þegar litið er yfir landið allt. En þó eru þar undantekningar – glæsilegur árangur víða um land.
Á laugardaginn var það enn og aftur staðfest að Sjálfstæðisflokkurinn er langöflugasta stjórnmálaaflið í sveitarstjórnum – ber höfuð og herðar yfir aðra stjórnmálaflokka. Alls fékk flokkurinn 113 fulltrúa kjörna í 35 sveitarfélögum þar sem flokkurinn bauð fram. Í 21 sveitarfélagi er Sjálfstæðisflokkurinn stærstur, víða langstærstur og með hreinan meirihluta. Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig fylgi í 11 sveitarfélögum. Í fyrsta skipti frá 2010 bauð flokkurinn fram í Húnaþingi vestra. Í sameinuðu sveitarfélagi, Blönduósi/Húnavatnshreppi, fóru sjálfstæðismenn fram en síðast var framboð á þeirra vegum á Blönduósi árið 2006. Í báðum þessum húnvetnsku sveitarfélögum gekk vel og er flokkurinn stærstur í þessum sveitarfélögum.
Spádómar rættust ekki
Að meðaltali stóð fylgi Sjálfstæðisflokksins, í þeim 35 sveitarfélögum þar sem flokkurinn bauð fram, í 36,6%. Fyrir fjórum árum var þetta meðaltal um 40%. Fylgið minnkaði því um tæp 3,6% frá 2018. Ekki sérlega góð niðurstaða en langt í frá að geta kallast pólitískt áfall, sem margir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins voru farnir að láta sig dreyma um. Að þessu leyti stóð flokkurinn af sér pólitískt gjörningaveður sem óvildarmenn kyntu undir með aðstoð nokkurra áhrifamikilla fjölmiðla. Spádómar um pólitíska jarðskjálfta rættust ekki.
Ekki þarf að fara mörgum orðum um góðan árangur Framsóknarflokksins, ekki síst í Reykjavík og raunar víðar á höfuðborgarsvæðinu. Hvernig kjörnum fulltrúum flokksins gengur að vinna úr þeim árangri á eftir að koma í ljós. Staða Framsóknarflokksins á höfuðborgarsvæðinu gjörbreyttist síðasta laugardag. Á liðnu kjörtímabili var flokkurinn aðeins með tvo kjörna fulltrúa (í Hafnarfirði og Kópavogi) en þeir eru nú orðnir 13 talsins.
Í sveitarstjórnarkosningum hefur staðan í landsmálum auðvitað áhrif, þótt þau séu misjöfn og sjálfsagt oft ofmetin. Staðbundin hagsmunamál skipta miklu og trúverðugleiki frambjóðenda vegur líklega þyngra en í alþingiskosningum.
En ef niðurstaða sveitarstjórnarkosninganna er með einhverjum hætti mælikvarði á stöðu ríkisstjórnarflokkanna, þá geta þeir sæmilega vel við unað. Á höfuðborgarsvæðinu eru þeir með 43 kjörna fulltrúa af 74 (þar af er Sjálfstæðisflokkurinn með 29) eða tæplega sex af hverjum tíu.
Meirihluti fellur í annað sinn
Að sama skapi hlýtur niðurstaðan að vera umhugsunarefni fyrir stjórnarandstöðuna. Viðreisn ríður ekki feitum hesti frá kosningunum eftir harða stjórnarandstöðu á þingi. Það litla sem flokkurinn virðist hafa áorkað er að veita vatni á myllu Pírata í Reykjavík. Sama má segja um Samfylkinguna.
Aðrar kosningarnar í röð missir Samfylkingin í Reykjavík, undir forystu Dags B. Eggertssonar, meirihluta í borgarstjórn. Frá því að hann varð borgarstjóri árið 2014 hefur Samfylkingin misst 11,6% – farið úr 31,9% atkvæða í 20,3% síðasta laugardag. Fyrir fjórum árum náði Dagur að setja Viðreisn undir vinstri samsteypuvagn sem varadekk (og Viðreisn tekur út sína refsingu). Ekki er hægt að útiloka að hann nái að spila svipaðan leik á komandi dögum. Líkt og fyrir fjórum árum yrði þá ákall kjósenda um breytingar að engu haft.
Ná ekki eyrum
Því er ekki að neita að sjálfstæðismenn um allt land vonuðust til að niðurstaðan í Reykjavík yrði betri en raun varð á. Flokkurinn má svo sannarlega muna fífil sinn fegurri í höfuðborginni.
Sjálfstæðismönnum hefur ekki tekist að ná eyrum borgarbúa í mörg ár. Í grein undirritaðs, sem birtist hér í Morgunblaðinu 5. febrúar 2014, fjallaði ég um stöðu Sjálfstæðisflokksins í höfuðborginni í aðdraganda kosninga. Þar hélt ég því fram að borgarbúar ættu erfitt með að átta sig á því fyrir hvað sjálfstæðismenn í Reykjavík standa:
„Á undanförnum árum hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gefið kjósendum misvísandi skilaboð. Engu er líkara en að frambjóðendur flokksins í komandi kosningum ætli að halda því áfram. Borgarstjórnarflokkur og frambjóðendur Sjálfstæðismanna hafa ekki komið fram sem ein heild – samhentur hópur með sömu sýn á framtíðina. Afleiðingin er sú að kjósendur eru ringlaðir.“
Ég fæ ekki betur séð en að skrifin frá 2014 eigi því miður of vel við á kosningaárinu 2022. Reykjavíkurverkefni Sjálfstæðisflokksins er enn óklárað. Þrátt fyrir það kemst enginn flokkur með tærnar þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur hælana í sveitarstjórnum. Síðastliðinn laugardag sannaðist enn og aftur að Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur þéttbýlis og dreifbýlis – sveitarstjórnarflokkurinn um allt land!
Morgunblaðið, 18. maí. 2022.