Heil­brigð­is­kerf­ið er of lok­að fyr­ir ný­sköp­un
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla- iðnaðar og nýsköpunarráðherra.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar­ráðherra, kynnti áherslur nýs ráðuneytis í Grósku síðastliðinn mánudag í tilefni Nýsköpunarvikunnar. Hún segir að það séu mörg forgangsverkefni sem hún muni setja á oddinn, einkum það að innleiða nýsköpun í heilbrigðisþjónustu.

„Það helsta sem maður tekur eftir er að heilbrigðiskerfið okkar er frekar lokað fyrir nýsköpun. Ég hef hitt fjöldann allan af frumkvöðlum sem komast ekki inn í eigið kerfi þótt þau séu að selja sína vöru til milljóna manna erlendis,“ segir Áslaug og bætir við að hún muni ráðast í það verkefni að innleiða nýsköpun í heilbrigðisþjónustu með sérstöku átaki.

„Við ætlum að taka stórt skref og úthluta 60 milljónum sem er eingöngu ætlað til innleiðinga á nýjum lausnum í heilbrigðisþjónustuna. Þetta mun vonandi stuðla að aukinni hagkvæmni í heilbrigðisþjónustu sem og að ýta við heilbrigðisstofnunum sem oft geta ekki sett orku og forgang í slík verkefna enda störfum hlaðnar.“

Áslaug segir að það séu fjölmörg dæmi þar sem heilbrigðiskerfið hafi farið á mis við að nota íslenskt hugvit.

„Til dæmis hefur fyrirtækið Kerecis lausn sem lætur sár gróa hraðar og það myndi stytta tíma fólks inni á spítala en sökum þess að það er dýrari lausn þá tökum við ekki inn í myndina að það myndi mögulega spara okkur á öðrum stöðum.“

Áslaug bendir á að það sé afar brýnt að heilbrigðiskerfið noti íslenskt hugvit í meiri mæli.

„Það kom fram í skýrslu McKins­ey að miðað við óbreytt ástand, ef tekið er tillit til öldrunar þjóðarinnar, þarf starfsfólki spítalans að fjölga um 45 prósent ef reksturinn verður óbreyttur og kostnaður spítalans muni aukast um 90 prósent til ársins 2040. Aftur á móti að ef kerfið nýti stafrænar lausnir og nýsköpun þá líti tölurnar allt öðruvísi út. Þá þarf starfsfólki spítalans aðeins að fjölga um 3 prósent og heildarkostnaður mun hækka um 30 prósent,“ segir Áslaug og bætir við að í rauninni megi engan tíma missa í þessum efnum.

„Nýsköpun er ekki aðeins mikilvæg heldur nauðsynleg. Við þurfum að stuðla að því að hugvitið verði stærri útflutningsgrein en verið hefur og því þurfum við að styðja betur við nýsköpun hér á landi.“

Fréttablaðið, 18. maí. 2022.