Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram frumvarp til breytinga á lögum, sem ætlað er að einfalda regluverk og ferilinn við að undirgangast tæknifrjóvgun.
Hildur hefur áður opnað sig um eigin erfiðleika við að eignast börn og boðað breytta sýn á tæknifrjóvgunarmál. Frumvarp Hildar var lagt fram á Alþingi, ári eftir að hún fór í forsíðuviðtal hjá DV þar sem hún ræddi áskoranirnar við barneignir. Í færslu á Facebook-síðu sinni segir Hildur það fallega tilviljun og vonast til að það beri með sér að frumvarpið fái góðan hljómgrunn til að auka tækifæri fólks til að eignast börn.
Snýst ekki um eigin hindranir
Þingmenn úr öllum flokkum eru meðflutningsmenn málsins. Hildur segir einnig í færslu sinni að breytingarnar sem hún leggur til nú taki ekki á atriðum sem snerti hennar persónulegu vegferð við að reyna að eignast barn „heldur eingöngu það sem ég hnaut um við að kynna mér þennan regluramma, sem mér fannst þurfa endurskoðun.“
Fósturvísum verði ekki sjálfkrafa eytt
Í frumvarpinu er lagt til að fallið verði frá skilyrðum um að par sé í hjúskap eða skráðri sambúð til þess að undirgangast tæknifrjóvgun. Í stað skilyrða um sambúðarform er lagt til að byggt verði á upplýstu, skriflegu og vottuðu samþykki beggja einstaklinga gagnvart tæknifrjóvgunarferlinu og geymslu fósturvísa að því loknu, eftir atvikum.
Þá er einnig lagt til að fallið verði frá þeirri reglu að slit á sambúð eða hjúskap leiði sjálfkrafa til þess að þeim fósturvísum, sem einstaklingarnir sem stóðu að tæknifrjóvguninni og eiga í geymslu í kjölfar meðferðar, verði undantekningalaust eytt.
Sama á við ef annar einstaklingurinn sem stóð að tæknifrjóvgun andast.
Heimilt yrði að gefa fósturvísa
Lagt er til í frumvarpinu að gjöf fósturvísa verði heimil en þó ekki í ábataskyni. Sú heimild byggist á sama grunni og heimild til að gefa kynfrumur til tæknifrjóvgunar þriðja aðila og yrði sömuleiðis háð upplýstu, skriflegu og vottuðu samþykki gjafans.
„Frumvarpið miðast að því að auka möguleika fólks til að verða foreldrar með hjálp tækninnar í krafti eigin ákvörðunarréttar. Af illskiljanlegum ástæðum er lagt bann við því í núgildandi lögum að gefa tilbúinn fósturvísi, þótt það myndi koma mörgum, sem eru í erfiðri stöðu, að gagni. Fólk sem vill fara í tæknifrjóvgun skal sömuleiðis vera skráð í staðfesta sambúð eða hjúskap. Við skilnað er sama fólki bannað að nýta fósturvísi sinn, jafnvel þótt einstaklingarnir vilji samt eignast barnið saman eða fyrir liggi samþykki beggja aðila fyrir því að annað þeirra nýti fósturvísinn. Þetta fyrirkomulag gerir mörgum óþarflega erfitt fyrir“, segir Hildur í samtali við mbl.is um málið.
Megi ekki vera hrædd við að uppfæra lög í takt við tímann
„Ríkisvaldið á ekki að miðstýra því hvernig fólk kýs að búa til fjölskyldu heldur þvert á móti auka tækifæri fólks til þess. Reglur eiga að vera eins skýrar og einfaldar og kostur er og án þess að miðast að óþörfu við lífsmáta eða búsetumynstur. Reglur eru fyrir fólk og löggjafinn má ekki að vera hræddur við að endurskoða þær í takt við tímann. Ég tel að frumvarpið sé mikilvægt skref í því“, segir hún jafnframt.
Morgunblaðið, 18. maí.