Er verið að njósna um þig?

Diljá Mist Einarsdóttir, alþingismaður: 

Aðalfundur Neytendasamtakanna samþykkti í lok síðasta árs ályktun þar sem íslensk stjórnvöld voru hvött til að tryggja stafræn réttindi neytenda á veraldarvefnum og til að beita sér fyrir banni við netauglýsingum sem byggja á persónusniði og eftirliti með notendum, svonefndum njósnaauglýsingum. Af því tilefni sendi ég dómsmálaráðherra og menningar- og viðskiptaráðherra formlegar fyrirspurnir á Alþingi um slíkar auglýsingar. Ég óskaði eftir upplýsingum um það hvernig stafrænn réttur neytenda á veraldarvefnum væri tryggður með tilliti til njósnaauglýsinga, og hvort ráðherrarnir hygðust tryggja réttindi einstaklinga betur þegar að þessu kemur.

Dómsmálaráðherra undirstrikaði að ein af mikilvægustu leiðunum til þess að tryggja þessi réttindi væri að fyrirtæki færu einfaldlega eftir þeim reglum sem gilda um málefnið. Ráðherrann upplýsti sömuleiðis að Persónuvernd og dómsmálaráðuneytið fylgdust grannt með þróun mála á þessu sviði og með þróun á breytingusm á regluverki á vettvangi EES í þessu samhengi.

Samkvæmt svari menningar- og viðskiptaráðherra er stafrænn réttur neytenda á veraldarvefnum víðsvegar tryggður í löggjöf hérlendis. Ráðherrann benti á að hröð stafvæðing á neytendamörkuðum á undanförnum árum hefði haft í för með sér fjölda áskorana og tækifæra fyrir neytendur og fyrirtæki. Það væri brýnt að tryggja friðhelgi einkalífs neytenda á netinu og að neytendavernd hérlendis væri með besta móti. Hún greindi frá því að vinna væri hafin við heildarstefnumótun á sviði neytendaverndar þar sem persónusniðnar auglýsingar væru m.a. til sérstakrar skoðunar.

Það er mikilvægt að lög og reglur verndi neytendur á veraldarvefnum og að lagaumhverfið fylgi eftir hraðri tækniþróun og stafvæðingu. Eins og dómsmálaráðherra bendir á er síðan lykilatriði að fyrirtæki fari eftir þeim reglum sem um málefnið gilda. Um leið og framangreind þróun býður upp á mikla möguleika, skapar hún einnig freistnivanda þar sem verulegur ábati getur skapast af notkun persónusniðinna auglýsinga. Þá er hætt við að góðir viðskiptahættir gagnvart neytendum verði undir. Það er jákvætt að fá staðfestingu á því að ráðherrar sem fjalla um málaflokkinn séu meðvitaðir um þessar áskoranir og að menningar- og viðskiptaráðherra hafi hug á að fara í sérstakar aðgerðir til að stuðla að vitundarvakningu neytenda í þessum efnum.

Vísir, 18. maí. 2022.