Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra.
Ísland mun fylgja Norðmönnum og Dönum og sýna þannig táknræna, norræna samstöðu með Svíum og Finnum, er kemur að aðildarumsókn þeirra að Atlantshafsbandalaginu en bæði ríkin hafa tilkynnt um áform þess efnis.
„Við ætlum okkur að verða með fyrstu ríkjunum til að afgreiða þetta,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra við Morgunblaðið.
Um leið og ríkin tvö leggja fram formlega umsókn sína mun Þórdís Kolbrún mæla fyrir þingsályktunartillögu á Alþingi, um að Ísland samþykki umsóknina. Sú ályktun hlýtur svo hefðbundna þinglega meðferð, þ.e. fer í gegnum tvær umræður og til meðferðar hjá utanríkismálanefnd.
Þórdís Kolbrún á ekki von á öðru en að það ferli taki örfáa daga. Hún hefur rætt við formenn allra þingflokka og segir samstöðu ríkja um málið.
Ríkisstjórnin fundaði í gær um málið. Innt eftir því hvort einhugur sé meðal ráðherra, segir Þórdís Kolbrún að fullur einhugur sé um að virða sjálfsákvörðunarrétt Svía og Finna og bjóða þá velkomna í NATO. Hún bendir á að í stefnuskrá Vinstri grænna, sé afstaða flokksins skýr hvað varðar aðild Íslands að bandalaginu, en Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, hafi þó lýst því yfir fyrir fimm árum að hún myndi styðja og vinna eftir þjóðaröryggisstefnu Íslands.
Aðild Svía og Finna að NATO mun koma til með að styrkja bandalagið og auka við öryggi þess, að mati Þórdísar Kolbrúnar. „Bæði hernaðarlega og líka af því að þetta eru mjög sterk ríki þar sem lýðræði, mannréttindi og réttarríkið er í hávegum haft.“
Muni aðstoða ríkin ef þurfi
Forsætisráðherrar Íslands, Danmerkur og Noregs hafa gefið út sameiginlega yfirlýsingu þar sem fram kemur að norrænu ríkin muni leggja sig fram um að tryggja að umsóknarferlið gangi hratt fyrir sig.
Þá taka forsætisráðherrarnir jafnframt fram að ríkin muni aðstoða Finnland og Svíþjóð með öllum ráðurm, verði öryggi þeirra ógnað. Þórdís Kolbrún segir að þessi hluti yfirlýsingarinnar hafi meiri þýðingu fyrir þær þjóðir sem búi yfir her, en þær bjóði fram öryggistryggingu til að brúa bilið frá því umsóknaferlið hefst og þar til Svíar og Finnar njóta verndar bandalagsins. Íslandi eru sett ákveðin takmörk, sökum herleysis síns, en mun þó ekki hika við að leggja sitt af mörkum ef til þess kæmi að annars konar aðstoðar væri þörf.
Þórdís Kolbrún kveðst skilja að Svíþjóð og Finnland vilji tryggja sig með þessum hætti. Þótt innganga þeirra í varnarbandalagið ætti ekki að vera ógn fyrir Rússland, sé ljóst að skoðun þeirra á aðild breyttist í kjölfar innrásar Rússa í fullvalda og sjálfstætt ríki.
Sannfærð um að ríkin fái aðild
Til þess að ríki fái aðild að NATO þarf samþykki allra 30 aðildarríkjanna. Að sögn Þórdísar Kolbrúnar liggur fyrir jákvæð afstaða 29 ríkja. Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, lýsti því yfir í gær að hann myndi ekki samþykkja umsóknir Svíþjóðar og Finnlands. Hann hefur stutt þá afstöðu sína þeim rökum að Tyrkland geti ekki fallist á inngöngu þjóða sem beiti refsiaðgerðum gagnvart Tyrklandi, jafnframt segir hann ríkin tvö hafa stutt við hryðjuverkastarfsemi með því leyfa Kúrdum að sinna stjórnmálastarfi í löndum sínum.
Þórdís Kolbrún er sannfærð um að þjóðirnar muni útkljá sín mál og hefur enga trú á því að Tyrkir setji sig í þá stöðu að koma í veg fyrir inngöngu Svía og Finna. Of miklir hagsmunir séu í húfi.
„Mál sem er komið þetta langt, svo breið samstaða er um, þar sem þjóðirnar hafa unnið sína heimavinnu vel og hagsmunirnir undir eru þetta miklir, finnst mér skipta máli að gangi hnökralaust fyrir sig, þar af leiðandi kann ég ekki að meta þegar mál eru sett á dagskrá sem standa því í vegi að þetta gangi hnökralaust fyrir sig.“
Morgunblaðið, 17. maí. 2022.