Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson
Kjördagur er runninn upp. Borgarbúum gefst í dag kostur á að velja sér hvernig Reykjavík það vill byggja næstu ár.
Við sem búum og störfum í Reykjavík vitum að það er fyrir margar sakir gott að búa í borginni. Greitt aðgengi að náttúruperlum innan borgarmarkanna eru forréttindi sem við Reykvíkingar njótum umfram flestar aðrar borgir í heiminum.
Borgin okkar stendur hins vegar á krossgötum. Lausatök í sjálfsögðu viðhaldi og þjónustu á vegum borgarinnar hafa verið viðvarandi of lengi. Greiða þarf úr fjármálaflækju borgarinnar, samgönguvandanum sem er öllum ljós og útilokunarstefnu Samfylkingarinnar í húsnæðismálum. Það þarf að hlúa að börnunum og veita þeim sjálfsagt tækifæri til að stunda nám og frístundir. Reykjavík á að vera í forystu í loftlagsmálum. Hætta að ganga á okkar dýrmætu útivistarsvæði, og sýna í verki forystu í orkuskiptum.
Það þarf að koma borginni í stand og inn í nútímann. Þegar höfuðborgin er ekki í forystu flytur fólk einfaldlega til annarra sveitarfélaga þar sem lífsgæði mælast betri.
Þessu getum við öllu breytt í dag. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík boðar borg sem virkar. Fjölbreyttur hópur frambjóðanda vill leysa úr umferðarvandanum, greiða götu einkaframtaksins, taka rekstur borgarinnar föstum tökum, lækka skatta og álögur, varðveita græn svæði og leysa úr bráðavanda leikskólanna. Sjálfstæðisflokkurinn boðar loksins Sundabraut og hreinni Reykjavík sem er haldið við.
Atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum er atkvæði með breytingum í þessa átt. Atkvæði til annarra flokka er atkvæði með framlengingu sitjandi valdhafa í ráðhúsinu.
Breytum til í borginni okkar. Kjósum Sjálfstæðisflokkinn og stöndum með Reykjavík.
Morgunblaðið, 14. maí. 2022.