Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti í Hafnarfirði.
Í kosningunum í dag óskum við Sjálfstæðismenn í Hafnarfirði eftir því að fá góðan stuðning til áframhaldandi forystu við stjórnun bæjarfélagsins. Við erum stolt af árangrinum sem við höfum náð á undanförnum árum og lítum framtíðina í bænum björtum augum.
Hafnarfjörður hefur blómstrað undir okkar forystu, þjónustan eflst á ýmsum sviðum, íþrótta-, menningar- og mannlíf blómstrar sem aldrei fyrr og mikil uppbygging er í bænum hvert sem litið er. Við höfum lagt áherslu á hreinan og snyrtilegan bæ og skilvirka þjónustu. Enda sögðust um 90% bæjarbúa vera ánægð með bæinn sinn í nýlegri þjónustukönnun.
Fyrirtækin flykkjast til Hafnarfjarðar enda hefur verið metsala á atvinnulóðum síðustu misseri. Með fyrirtækjunum fylgja fjölmörg störf og önnur umsvif sem bæjarbúar njóta. Þá eru íbúðir að þjóta upp í nýjum hverfum bæjarins og ætla má að Hafnfirðingum fjölgi um 7.500 manns á næsta kjörtímabili. Þessi mikla fólksfjölgun kallar á ný og krefjandi verkefni þar sem reyna mun á stjórnendur bæjarins.
Áfram velferð og blómlegt mannlíf
Núverandi meirihluti hefur gætt hófs í álögum á bæjarbúa og lækkað gjöld á fjölskyldufólk. Til að koma til móts við hækkandi fasteignaverð hefur álagningarstuðull fasteignagjalda jafnan verið lækkaður. Hafnfirðingar geta síður en svo gengið út frá því að svo verði áfram, nema að Sjálfstæðisflokkurinn fái afgerandi stuðning í kosningunum. Síðustu ár hafa verið nýtt í að bæta fjárhagsstöðu bæjarins og lækka skuldahlutföll enda er öflugur fjárhagur grunnur þess að hægt sé að halda áfram að bæta þjónustuna til fjölbreyttra hópa.
Ég hvet Hafnfirðinga til að kjósa áfram árangur, velferð, blómlegt mannlíf og framfarir í Hafnarfirði og tryggja Sjálfstæðisflokknum gott umboð til að vera í forystu í næsta meirihluta bæjarstjórnar. Því er brýnt að Hafnfirðingar kjósi Sjálfstæðisflokkinn í dag. Hvert atkvæði skiptir máli.
Morgunblaðið, 14. maí. 2022.