Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Reykvíkingar standa í dag frammi fyrir skýru vali. Að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og breytta stjórnarhætti í Reykjavík, eða einhvern hinna og fá meira af því sama.
Við höfum fundið ákall um breytingar í borginni í samtölum okkar við borgarbúa undanfarna daga. Slíkar breytingar verða einungis fái Sjálfstæðisflokkurinn nægjanlegan stuðning frá kjósendum. Saga undanfarinna áratuga í Reykjavík sýnir að atkvæði til annarra flokka verða að endingu til þess að veita borgarstjóra og samstarfsfólki hans framhaldslíf.
Nýir vendir sópa best
Sjálfstæðisflokkurinn vill nýja nálgun í borgarmálunum þar sem hversdagslegar þarfir borgarbúa eru í forgrunni. Reykvísk börn eiga að geta gengið að leikskólaplássi vísu við 12 mánaða aldur. Skólahúsnæði á að vera heilnæmt. Við verðum að tryggja frelsi og val í samgöngum, og nægt húsnæðisframboð fyrir alla aldurshópa. Gleymum heldur ekki hversdagslegu hlutunum. Borgin á að vera hrein og vel hirt þannig að íbúar geti verið stoltir af.
Ekkert er þó mögulegt nema að fjárhagur borgarinnar sé traustur. Við þurfum að tryggja að borgarsjóður nái endum saman og að tekið sé á skuldavanda borgarinnar. Aðeins þannig myndast svigrúm til að lækka skatta á borgarbúa. Sjálfstæðismenn bera virðingu fyrir skattfé borgarbúa, og við vitum að því er fyrst og fremst ætlað að standa undir þeirri þjónustu sem við eigum lögum samkvæmt að veita íbúunum.
Við þurfum nýja vendi sem sópa betur í Reykjavík
Skýrt val
Ég óska eftir stuðningi ykkar í dag. Valið er skýrt. Nýir tímar í Reykjavík undir forystu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, eða meira af því sama.
Kjósum Sjálfstæðisflokkinn og tryggjum löngu tímabærar breytingar í Reykjavík.
Morgunblaðið, 14. maí, 2022.