Ásdísi Kristjánsdóttir oddviti í Kópavogi.
100 loforð, sem öll eru til þess fallin að bæta og einfalda líf okkar og gera Kópavogsbæ enn betri. Það er það sem við, sem leiðum Sjálfstæðisflokkinn í Kópavogi, lögðum upp með í aðdraganda þeirra kosninga sem fram fara í dag. Af viðbrögðum kjósenda er ljóst að það er vissulega gott að búa í Kópavogi en um leið er almennur vilji til að gera enn betur í okkar góða bæ.
Kópavogur er í forystuhlutverki sveitarfélaga á Íslandi. Ólíkt höfuðborginni er bærinn vel rekinn, vel skipulagður og vel undirbúinn til að takast á við framtíðina. Og það er einmitt þangað sem við stefnum, því framtíðin felur hvort í senn í sér nýjar áskoranir og ný tækifæri. Til að Kópavogur geti áfram verið í forystuhlutverki megum við ekki sofna á verðinum, sýna kæruleysi í rekstri bæjarins eða draga úr þjónustu við íbúa á öllum aldri. Þess vegna leggjum við fyrir kjósendur 100 loforð sem ná utan um rekstur bæjarins, skóla- og leikskólamál, skipulagsmál og samgöngur, umhverfismál og grænar lausnir, þjónustu við eldri íbúa, heilsueflingu, geðheilbrigðismál, þjónustu, stafræna framþróun, listir og menningu, íþrótta- og tómstundastarf og þannig mætti áfram telja.
Hér er um að ræða raunhæf loforð, en ekki flugeldasýningu sem aðeins dugir fram að kosningum en ekki eftir þær. Tæplega 90% íbúa í Kópavogi eru ánægð með sveitarfélagið sem stað til að búa á en eins og ég hef ítrekað sagt í kosningabaráttunni verðum við að vera vel vakandi fyrir framtíðinni, nýjum lausnum, nýrri þróun og nýjum tækifærum til að tryggja að fólk á öllum aldri sjái hag sinn í því að búa í Kópavogi.
Hátíðleg stund
Framtíðin er í Kópavogi, var og er það slagorð sem við lögðum jafnframt upp með. Það slagorð er þó ekki úr lausu lofti gripið, því framtíðin kemur og fer áður en við vitum af. Henni fylgja nýjar áskoranir og það er undir okkur komið hvernig við tökumst á við þær. Við getum horft yfir alla þá málaflokka sem snúa að rekstri, þjónustu og skipulagi bæjarins og séð fyrir okkur verkefnin sem eru fram undan – en mikilvægast er að leysa þau þannig að íbúar bæjarins á öllum aldri njóti góðs af þeim lausnum. Af þeirri ástæðu þurfum við að vera framsækin en um leið ábyrg. Við rekumst sífellt á að þær lausnir sem virkuðu einu sinni gera það ekki lengur. Þess vegna þurfum við að koma fram með nýjar og ferskar hugmyndir.
Forsenda þess að tryggja forystuhlutverk Kópavogs, framsækni, góða þjónustu, nýjar lausnir og ábyrgan rekstur er að Sjálfstæðisflokkurinn hafi umboð til að fylgja þeim málum eftir. Það er alltaf hátíðleg stund að ganga að kjörborðinu og fela atkvæði sitt þeim flokkum og einstaklingum sem við treystum best til þess að bæta hag okkar og framtíðarkynslóða. Í dag fáum við tækifæri til þess og kjósendur í Kópavogi geta tryggt að framtíð bæjarins sé í góðum höndum undir forystu Sjálfstæðisflokksins.
Morgunblaðið, 14. maí, 2022.