Diljá Mist Einarsdóttir, alþingismaður:
Á þeim áratugum sem vinstrimenn hafa stjórnað sjóðum Reykjavíkurborgar hefur borgin verið rekin á yfirdrætti. Allar álögur á borgarbúa eru í hæstu hæðum og tekjur borgarsjóðs hafa stóraukist, en á sama tíma hefur skuldasöfnun borgarinnar verið ógnvænleg. Stjórnkerfi Reykjavíkurborgar er orðið þunglamalegt og svifaseint og starfsmönnum borgarinnar hefur stórfjölgað, ekki síst stjórnendum. Skrifstofa borgarstjóra rekur sig víst ekki sjálf.
Geysileg raunaukning á skuldum
Samkvæmt skýringum við ársreikning borgarinnar er skuldahlutfallið nú 136% og fer áfram hækkandi og nálgast óðfluga hámark sveitarfélaga samkvæmt lögum (þótt nú sé í gildi tímabundin undanþága). Miðað hefur verið við hæst 150% til að sjálfbærni sé ekki stefnt í voða. Geysileg raunaukning hefur orðið á tekjum og á sama tíma – merkilegt nokk- á skuldum. (Sjá meðf. töflu sem ég fékk senda frá góðum manni, en áhugasamir geta margfaldað liðina samkvæmt leiðbeiningum til þess að sjá raunstöðuna). Það þýðir ekki að reyna að blekkja fólk með bókhaldsbrellum og með samanburði á eplum og appelsínum í því skyni að afvegaleiða umræðuna.
Það hefur verið meirihlutanum sem stýrir Reykjavíkurborg til happs að málefni borgarinnar hafa ekki fengið nægjanlegt rými í umræðunni sl. vikur. Þeir sem hrópa hæst um gagnsæi og hafa reglulega uppi háværar ásakanir um spillingu og lögbrot, vita nefnilega að ýmislegt í rekstri borgarinnar þolir illa vandaða umræðu og yfirferð. Það væri því ekki úr vegi að fríska upp á minni lesenda sem hafa e.t.v. eðlilega verið með hugann í Tórínó.
Braggamálið og fleiri misfellur
Eitt af nýlegum gæluverkefnum ráðamanna í borginni var að útbúa veitingahús í gömlum bragga í Nauthólsvík. Þótt veitingarekstur og bygging húsakynna fyrir slíkan rekstur teljist ekki til lögbundinna verkefna sveitarfélaga, bráðlá svo á verkinu að borgarstjóra láðist að afla fjárheimilda til verksins. Kostnaðurinn reyndist þegar upp var staðið vera um 600 milljónir króna. Skýrsla um framkvæmd verksins leiddi í ljós miklar misfellur og meint brot á lögum og reglum. Nokkuð moldviðri var vegna málsins um skamma hríð, en borgarstjóri sagði mest um vert að læra af mistökunum. Enginn sagði af sér, enginn sætti ábyrgð og raunar var engin slík krafa gerð. Enginn útifundur eða tónleikar voru haldnir vegna málsins. Það skyldi þó ekki vera að þeir stjórnmálamenn sem báru ábyrgðina telji sig undanskilda kröfum sem þeir gera til kollega sinna?
Við byggingu Reykjavíkurborgar á gas-og jarðgerðarstöð Sorpu í Álfsnesi, GAJU, kom stjórnarformaður Sorpu úr röðum pírata. Eftir margra milljarða yfirkeyrslu verkefnisins reynist stöðin ónothæf til þess sem hún var ætluð. Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar hefur gert fjölmargar athugasemdir við verkefnið og að lokum steig framkvæmdastjóri til hliðar. Málið er eitt klúður frá upphafi til enda og ljóst að ómældar fjárhæðir hafa farið í súginn í þessu félagi í meirihlutaeigu borgarinnar.
Hvað vilja íbúarnir?
Lögbundin verkefni sveitarfélaga standa íbúum mjög nærri og eru þeim mikilvæg í daglegu lífi. Þeir vilja auðvitað komast þar fyrir, geta fengið lóð eða húsnæði sem hentar þeim. Íbúar vilja fá leikskólapláss fyrir börnin sín eftir að fæðingarorlofi lýkur. Þeir vilja að sorphirðu sé sinnt vel og að umhverfi þeirra sé snyrtilegt. Þeir vilja að það sé mokað á veturna og slegið á sumrin. Þeir vilja sveitarfélag sem virkar. Ef það virkar ekki, ef grunnþjónustunni er illa sinnt á sama tíma og íbúarnir borga hæstu gjöldin til sveitarfélagsins, þá hlýtur að vera kominn tími til þess að fela öðrum rekstur sveitarfélagsins. Ræðum það endilega fyrir kosningarnar á laugardaginn. Ræðum hvaða kröfur við gerum til veitingar grunnþjónustu og hverjum við treystum best til að sinna henni almennilega. Hvað við viljum greiða há opinber gjöld og hver forgangsröðunin á að vera við ráðstöfun þeirra.
Ræðum minni skuldir, meiri hagræðingu, lægri álögur og betri þjónustu.
Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu, 12, maí 2022.