Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla- iðnaðar og nýsköpunarráðherra.
Reykjavík er að mörgu leyti frábær borg að búa í. Hún er auðvitað stór á íslenskan mælikvarða, en nógu lítil til að taka vel utan um okkar og gera okkur kleift að komast fljótt á milli staða. Hér er öflugt menningarlíf og góðir veitingastaðir sem hvort tveggja kallar fram hughrifin af erlendum stórborgum – en hér er líka stutt í náttúru og útivist. Við höfum aðgang að nær allri þeirri þjónustu sem við þurfum og getum hæglega notið þess besta sem hagsældin sem við búum við býður upp á. Það eru mikil forréttindi.
Af þessum ástæðum, og fleiri til, hefur Reykjavík alla burði til að vera í forystuhlutverki, sem hún er því miður ekki í eins og sakir standa. Borgin ætti að njóta þeirrar stærðarhagkvæmni sem önnur sveitarfélög hafa ekki tök á að nýta, fjárhagur hennar ætti að vera sterkur og stjórnsýslan ætti að vera öflug og skilvirk.
Til að vera í forystuhlutverki þarf að efla þátttöku almennings, fjölga valkostum, lækka álögur og einfalda stjórnsýsluna. Íbúalýðræði felst ekki í því að leyfa íbúum að kjósa um lagfæringar á annaðhvort leikvöllum eða göngustígum fyrir fjármuni sem eru aðeins brot af rekstri borgarinnar, heldur um alvöru valkosti í mikilvægum málaflokkum sem skipta máli í lífi fólks, sem og í leik- og grunnskólamálum, í heimaþjónustu fyrir aldraða, þjónustu fyrir fatlaða og þannig mætti áfram telja. Reykjavík hefur allt til þess að bera til að vera með framúrskarandi skóla, góða þjónustu og gott skipulag um borgina.
Til að vera í forystuhlutverki þurfa kjörnir fulltrúar borgarbúa að finna alvöru lausnir á samgöngumálum, lausnir sem miða að því að einfalda samgöngur og gera þær skilvirkari og fjölbreyttari – í stað þess að ætla að kenna fólki lexíu um það hvernig lífsstíl það eigi að velja sér.
Til að vera í forystuhlutverki þurfa kjörnir fulltrúar að finna leiðir til að auðvelda fólki að hefja fyrirtækjarekstur, vinna með fyrirtækjum sem starfa nú þegar í borginni og meta mikilvægt framlag þeirra til samfélagsins. Að sama skapi þurfa borgarfulltrúar að bera virðingu fyrir því fjármagni sem fólk og fyrirtæki færa þeim til ráðstöfunar með dugnaði sínum og eljusemi um hver mánaðamót.
Til að vera í forystuhlutverki þarf Reykjavík fólk sem sér borgina fyrir sér í því hlutverki, fólk sem vill sjá borgina og íbúa hennar skara fram úr og fólk sem tekur hlutverk sitt alvarlega þegar kemur að því að gera líf íbúa einfaldara og betra. Það er hægt að gera svo mikið betur í þeim málum en gert hefur verið.
Til að þetta verði að veruleika þarf að skipta um meirihluta í borginni og kjósa til forystu fólk sem deilir þeirri sýn að borgin geti verði í forystuhlutverki. Það gera þau sem leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Morgunblaðið, 12. maí. 2022.