Stækkum samfélagið
'}}

Birna Ásgeirsdóttir, 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokks í Norðurþingi:

Á kjörtímabilinu sem senn lýkur var lögð aukin áhersla á fjölmenningu í starfsemi sveitafélagsins. Fjölmenningarfulltrúi var ráðinn í 100% starf til að annast meðal annars upplýsingagjöf til nýrra íbúa í Norðurþingi og stuðla að samstarfi þeirra aðila sem fara með málefni nýrra íbúa í sveitarfélaginu. Jafnframt sinnti fjölmenningarfulltrúi samskonar þjónustu í nágrannasveitarfélögunum Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi.

Það er ekki að ástæðulausu sem þessi áhersla var lögð. Samsetning íbúa í Norðurþingi hefur breyst á undanförnum árum, en nú eru um 17% íbúa í Norðurþingi af erlendum uppruna. Slíkt felur í sér ýmsar áskoranir fyrir hvort tveggja stjórnsýslu sveitarfélagsins og samfélagið. Þeim áskorunum vildum við mæta af fagmennsku innan stjórnsýslunnar og að þar innan borðs væri starfsmaður sem starfaði þvert á hin hefðbundnu svið stjórnkerfisins til að samþætta sem best þá þjónustu sem nýjum íbúum er veitt.

Á komandi kjörtímabili viljum við í Sjálfstæðisflokknum í Norðurþingi gera enn betur. Við höfum orðið þess áskynja að í okkar ágæta samfélagi sem hefur alla kosti smæðarinnar þegar kemur að því að taka á móti nýju fólki, gæti okkur gengið betur að aðlaga nýja íbúa að samfélaginu og okkur að þeim. Við viljum því undir einkunnarorðunum „stækkum samfélagið“ blása til enn frekari sóknar. Nú þegar er búið að koma á tungumálakaffi þar sem heimamenn af erlendum og innlendum uppruna mætast yfir kaffibolla og ræða saman um allt milli himins og jarðar. Er það vel og við viljum sjá þennan viðburð halda áfram að dafna á komandi kjörtímabili. Til viðbótar viljum við koma á tengiliðaverkefni í samstarfi sveitarfélagins, fyrirtækja og félagasamtaka.

Best er að lýsa því með dæmi. Fjögurra manna fjölskylda flytur til Húsavíkur hvar heimilisfaðirinn hefur fengið vinnu. Móðirin tekur með sér óstaðbundið starf frá heimalandinu og börnin tvö fara í leikskóla og grunnskóla. Leikskólabarnið fær vin á leikskólanum sem hjálpar því að læra á leikskólann og hvernig leikskóladagurinn gengur fyrir sig. Í grunnskólanum gildir það sama, barnið fær vin sem leikur við það í frímínútum, aðstoðar við að rata um skólann og á skólalóðinni en að auki tekur vinurinn barnið með sér í sínar tómstundir s.s. í félagsmiðstöð og á íþróttaæfingar. Á vinnustað föðursins fær hann tengilið sem aðstoðar hann með praktíska hluti eins og hvernig kaupir maður aðgang að líkamsrækt og hvað er í boði, eru einhver félagasamtök sem faðirinn hefði áhuga á að taka þátt í og hvernig getur hann gengið til liðs við þau. Móðirin starfar heima í óstaðbundnu starfi. Hún fengi því tengilið frá félagasamtökum sem hún gæti leitað til með praktísk mál, eins og hvernig fær hún aðgang að bókasafni eða er til staðar vinnustaður þar sem hún gæti haft aðstöðu.

Á fyrstu dögum búsetu í sveitarfélaginu væru því allir í fjölskyldunni búnir að eignast vin sem gæti haldið í hönd þeirra að minnsta kosti á meðan þau stíga fyrstu skrefin í að fóta sig í samfélaginu. Með þessu móti teljum við að við getum betur aðlagað nýja íbúa að samfélaginu og aukið þátttöku þeirra í því. Þátttaka barna af erlendum uppruna í félagsstarfi barna og unglinga gæti aukist og við getum betur virkjað mannauðinn sem er fólgin í erlendu íbúunum til góðra verka í ýmis konar félagsstarfi. Þar með stækkum við samfélagið okkar og gerum það betra fyrir okkur öll!