Birgir Ármannsson, alþingismaður:
Kosningar til borgarstjórnar í Reykjavík og sveitarstjórna um allt land skipta gríðarlega miklu máli. Á undanförnum árum hafa sífellt fleiri verkefni færst til sveitarfélaganna og ákvarðanir sem teknar eru á sveitarstjórnarstiginu hafa ekki bara veruleg áhrif á daglegt líf íbúanna heldur líka á þjóðfélagið allt, bæði hvað varðar vöxt og viðgang efnahags- og atvinnulífs, samgangna, menntamála, menningar og hvers kyns velferðarþjónustu.
Af þessum sökum þarf enginn að velkjast í vafa um að það skiptir verulegu máli hverjir veljast til að leiða starf sveitarstjórna í þessum mikilvægu verkefnum. Það á jafnt við í stórum bæjum og fámennari sveitarfélögum. Reykjavíkurborg hefur svo auðvitað sérstöðu sem langstærsta sveitarfélagið.
Ég er í hópi þeirra sem telja að verulegra breytinga sé þörf á vettvangi borgarmálanna. Áframhaldandi samsuða fjölmargra flokka undir leiðsögn Samfylkingarinnar er ávísun á óbreytt ástand og við blasir að eini raunhæfi möguleikinn til að ná fram breytingum er að sjálfstæðismenn nái sterkri stöðu í kosningunum.
Sjálfstæðisflokkurinn býður fram öflugan hóp frambjóðenda með skýra sýn á framtíðaruppbyggingu borgarinnar og þjónustu sem virkar. Í hópnum eru bæði einstaklingar sem hafa mikla reynslu á sviði borgarmála og nýir frambjóðendur, sem geta miðlað af fjölbreyttri reynslu sinni af ólíkum sviðum samfélagsins. Borgarstjóraefni listans, Hildur Björnsdóttir, er sterkur stjórnmálamaður og hefur á undanförnum fjórum árum sýnt hvað í henni býr með ákveðnum og málefnalegum málflutningi.
Ég skora á borgarbúa að nýta sér kosningaréttinn og veita frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins brautargengi. Hvert atkvæði skiptir máli.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, 13. maí 2022