Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi.
Húsnæðisskortur og gegndarlaus óðaverðbólga á fasteigna- og leigumarkaði eru orðin að þjóðarmeinsemd og helsta efnahagsvanda þjóðarinnar. Ungu fólki er nú nánast ókleift að koma þaki yfir höfuðið og ástandið fer sífellt versnandi. Frá hausti 2020 og til ársins 2021 nam hækkun íbúðarhúsnæðis í Reykjavík 17 prósentum og á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs hækkaði meðalkaupverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu um fimm milljónir. Samkvæmt greiningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar fækkaði íbúðum til sölu um 74 prósent frá því í maí 2020 og fram að síðustu áramótum.
Afleiðingar ofþéttingar
Upphaf þessarar óheillaþróunar ber augljóslega að rekja til skipulagsstefnu borgaryfirvalda. Með nýju aðalskipulagi, árið 2013, var stefnan tekin á þessa óheillaþróun með ofþéttingu byggðar. Hún hefur síðan haft í för með sér skipulegan lóðaskort, margföldun á verði byggingarlóða, afar einhæfan húsa- og íbúðakost og sífellt kostnaðarsamari og flóknari skilyrði borgaryfirvalda fyrir lóðaúthlutun og byggingarrétti. Þessi stefna hefur bókstaflega elt uppi öll þau víti sem varast ber. Það er afleitt því það er ekki hlutverk borgaryfirvalda að kynda verðbólgubál og stuðla að húsnæðisskorti, heldur að forðast slíka óáran.
Íbúaspá og lóðaúthlutun
Ef við gerum ráð fyrir að íbúum Reykjavíkur fjölgi um tvö prósent á ári hefur þeim fjölgað um 61.000 árið 2040. Við þyrftum því að byggja 25.000-30.000 íbúðir á tímabilinu eða a.m.k. 2.000 íbúðir á ári. Borgaryfirvöld hafa hins vegar gert ráð fyrir að í Reykjavík verði byggðar 1.000 íbúðir á ári og það hafa þau ekki einu sinni staðið við. Þrátt fyrir þetta viðmið aðalskipulagsins um 1.000 íbúðir á ári hefur þeim íbúðum á kjörtímabilinu sem skilgreindar eru „í byggingu“ fækkað jafnt og þétt allt þetta kjörtímabil. Það lætur nærri að íbúðum „í byggingu“ hafi fækkað um nær þriðjung á tveimur árum. Borgaryfirvöld úthlutuðu einungis 450 byggingarlóðum á síðasta ári. Sú úthlutun hefði þurft að vera ríflega þrefalt meiri.
Að kjósa með fótunum eða í kosningum
Þetta forystuhlutverk borgaryfirvalda í húsnæðisskorti og óðaverðbólgu á fasteignamarkaði hefur svo haft í för með sér mikinn flótta fyrirtækja, stofnana og borgarbúa frá höfuðborginni og í nærliggjandi sveitarfélög með tilheyrandi umferðarþunga, tímaskatti og mengun. Tölur Hagstofunnar tala skýrustu máli um þessa þróun: Á síðustu árum hefur íbúafjölgun verið 10 prósent í Árborg á sama tíma og hún hefur verið eitt til tvö prósent í Reykjavík. Þetta kallast að kjósa með fótunum.
Enginn skyldi ætla að núverandi borgaryfirvöld snúi af þessari óheillabraut, Hún er kjarninn í þeirra hugmyndafræði. En við sjálfstæðismenn ætlum að snúa af þessari braut svo aftur sjái til sólar í Reykjavík. Við ætlum tafarlaust að úthluta nægum fjölda lóða í nýjum hverfum fyrir fjölbreytta byggð á hagkvæmu verði. Hættum því að kjósa með fótunum og kjósum Sjálfstæðisflokkinn á laugardaginn. Það er ekki eftir neinu að bíða, kjósandi góður – því lengi getur vont versnað.
Morgunblaðið, 13. maí. 2022.