Valfrelsi, stjórnlyndi, hófsemd og skuldsetning

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Hvernig til tekst við rekstur og þjónustu sveitarfélaga hefur bein áhrif á lífskjör okkar allra. Í sumum sveitarfélögum hefur tekist að samþætta hófsemd í opinberum álögum og gjöldum við öfluga þjónustu. Í öðrum (og þau eru því miður of mörg) eru álögur í hámarki en íbúarnir fá ekki þá þjónustu sem þeir ætlast til að sveitarfélagið veiti.

Ég hef áður gert það að umtalsefni á þessum síðum að hugmyndafræði skipti ekki síður máli við stjórnun sveitarfélaga en við ríkisreksturinn. Þar takast á hugmyndir um hvort íbúarnir njóti valfrelsis í samgöngumálum, húsnæðismálum og skólamálum eða hvort stjórnlyndi ráði för. Sveitarstjórnarmaður sem leggur áherslu á aðhaldssemi í rekstri gefur ekki út kosningavíxla eða undirritar viljayfirlýsingar um hitt og þetta, sem lítil innistæða er fyrir – ekki einu sinni í aðdraganda kosninga til að fá af sér huggulega ljósmynd. Stjórnmálamaður sem berst fyrir sífellt auknum útgjöldum hefur litlar áhyggjur af þungum álögum á íbúana. Áhugi hans snýst um að láta engin tækifæri til tekjuöflunar fram hjá sér fara og ef nauðsynlegt er að skuldsetja sveitarsjóð.

Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga er ekki óeðlilegt að mesta athyglin beinist að höfuðborginni – langstærsta sveitarfélagi landsins. Það skiptir ekki aðeins Reykvíkinga máli hvernig til tekst við rekstur borgarinnar heldur eiga allir landsmenn beint eða óbeint mikið undir því að þar takist vel til. Blómleg, vel skipulögð og hrein höfuðborg er metnaðarmál allra.

Gengið á eigið fé

Samfylkingin hefur verið leiðandi í meirihluta borgarstjórnar allt frá árinu 2010. Fyrst í samstarfi við Besta flokkinn en síðan í bræðingi annarra vinstri flokkanna; VG, og Pírata og Viðreisnar síðustu fjögur ár. Frá 2014 hefur Dagur B. Eggertsson verið borgarstjóri en fjögur ár þar á undan var hann formaður borgarráðs.

Hægt er að nota ýmsa mælikvarða á hvernig til hefur tekist á þessu valdatíma vinstri manna í borginni. Samgöngumál eru í ólestri. Loforð um gríðarlega uppbyggingu leiguíbúða hafa ekki staðist. Skipulagsmál hafa leitt til ófremdarástands á íbúðamarkaði. Viðhaldi skóla hefur ekki verið sinnt. Barnafjölskyldur fá ekki nauðsynlega þjónustu og þannig má lengi telja. Og ekki hefur tekist vel í rekstri borgarsjóðs.

Skattstofnar Reykjavíkur, líkt og flestra annarra sveitarfélaga, hafa styrkst verulega á síðustu árum. Útsvarsstofn einstaklinga hefur hækkað hressilega vegna launahækkana og grunnur fasteignagjalda hefur stórhækkað vegna þróunar fasteignaverðs. Meirihlutinn í Reykjavík hefur ekki séð ástæðu til þess að nýta þetta tækifæri – hagstæða þróun – til að slaka örlítið á klónni. Þegar litið er á rekstur A-hluta borgarsjóðs er það skiljanlegt. Uppsafnaður halli frá 2014 er um 14 þúsund milljónir króna á föstu verðlagi. Tekjurnar duga sem sagt ekki fyrir grunnrekstri borgarinnar. Skuldir aukast og gengið er á eigið fé. Borgarsjóður er ósjálfbær og þar að treysta á afkomu fyrirtækja í B-hluta.

Borgin gefur lítið eftir við að afla sér fjár með sköttum eða þjónustugjöldum. Útsvarið er eins hátt og lög leyfa og mun hærra en í mörgum minni sveitarfélögum, sem njóta ekki hagkvæmni stærðarinnar sem Reykjavík ætti að búa við væri rétt staðið að málum.

Í viðtali við DV í október 2015 hélt borgarstjóri því fram að Reykjavík glímdi við tekjuvanda – útgjaldavandi væri ekki til staðar. Ári síðar taldi borgarstjóri rétt að borgin fengi sérstaka ríkisaðstoð til að hægt væri að skipta út eitruðu dekkjakurli á íþróttavöllum barna og unglinga. Tekjuvandinn kom hins vegar ekki í veg fyrir „bragga-ævintýrið“.

Skuldir hækkað um 87%

„Tekjuvandi“ A-hluta borgarsjóðs er ekki meiri en svo að tekjurnar hafa hækkað um 43% að raunvirði frá 2014. Eftir 12 ára valdatíma vinstri flokkanna glímir borgarsjóður við útgjalda- og skuldavanda, þar sem eigið fé er étið upp:

• Árið 2021 voru skatttekjur Reykjavíkur liðlega 33 þúsund milljónum krónum hærri á föstu verðlagi en 2014 – árið sem Dagur B. Eggertsson settist í stól borgarstjórna. Raunhækkunin var tæplega 43%. Sé litið aftur til ársins 2010 þegar þeir félagar Jón Gnarr og Dagur B. tóku við völdum í Reykjavík þá voru skatttekjurnar um 41 þúsund milljónum hærri á síðasta ári.

• Í heild voru rekstrartekjur A-hluta borgarinnar liðlega 42 þúsund milljónum hærri á liðnu ári en 2014 og nær 58 þúsund milljónum sé miðað við 2010.

• Á föstu verðlagi voru tekjur A-hluta borgarsjóðs um 970 þúsund krónum hærri á hverja fjögurra manna fjölskyldu 2021 en 2010, þar af skatttekjur 717 þúsund.

• Í borgarstjórnartíð Dags B. Eggertssonar hefur launakostnaður A-hluta hækkað um 60% að raunvirði eða rúmlega 32 þúsund milljónir. Hlutfall launakostnaðar af tekjum hefur farið úr 53,6% í 60,4%.

• Rekstrargjöld á hverja fjögurra manna fjölskyldu voru 674 þúsund krónum hærri á síðasta ári en 2014 – á föstu verðlagi. Í heild hækkuðu gjöldin um nær 35 þúsund milljónir króna að raunvirði.

• Að raungildi hafa skuldir borgarsjóðs hækkað um 87% eða um rúmlega 67 þúsund milljónir króna. Þetta jafngildir rúmlega 1,7 milljóna króna skuldaaukningu á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

• Eigið fé borgarsjóðs hefur rýrnað um tæplega 13 þúsund milljónir króna á föstu verðlagi frá 2014. Eiginfjárhlutfallið hefur lækkað úr 58% árið 2014 í 39% í lok síðasta árs.

Það er borin von að álögur á borgarbúa lækki á komandi árum haldi núverandi meirihluti velli – enn eitt varadekkið breytir þar engu. Útsvarið lækkar ekki, þjónustugjöld lækka ekki. Þjónusta borgarinnar verður ekki betri. Samgöngur verða áfram í ólestri og þar skiptir engu þótt gömul kosningaloforð um stokk séu endurnýjuð. Bolmagn borgarinnar til að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar í hagræðum og félagslegum innviðum verður takmarkað. Á sama tíma styrkjast nágrannasveitarfélögin. Umsvifamikil uppbyggingin er fram undan í Mosfellsbæ. Haldið verður áfram að lækka álögur á íbúa í Kópavogi og Hafnarfirði. Á Seltjarnarnesi verður útsvarið lækkað. Í Garðabæ njóta íbúar hófsemdar í álögum. Í öllum þessum sveitarfélögum verður góð þjónusta aukin með óbreyttum meirihlutum.

Í kjörklefanum á laugardaginn velja kjósendur um allt land á milli ólíkra hugmynda. Niðurstaðan hefur áhrif á lífskjör okkar allra á komandi árum.

Morgunblaðið, 11. maí. 2022.