Breytum til batnaðar – X-D
'}}

Kjartan Magnússon, 3. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Eftir tólf ára óstjórn vinstri manna er sannarlega kominn tími á breytingar í borgarstjórn. Reykjavíkurborg hefur á mörgum sviðum glatað því forystuhlutverki, sem hún hafði lengi meðal íslenskra sveitarfélaga. Gildir þá einu hvort litið er til fjárhagsstöðu, lóðaframboðs eða margvíslegrar grunnþjónustu. Nýlega birtist enn ein könnunin (þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ), sem staðfestir að meðal Reykvíkinga mælist mun minni ánægja með þjónustu sveitarfélagsins en hjá íbúum annarra sveitarfélaga.

Stíflustefna í samgöngumálum

Umferðarmál eru í ólestri í Reykjavík vegna þess að núverandi borgarstjóri beitir sér markvisst gegn samgönguframkvæmdum, sem auka myndu umferðaröryggi og greiða fyrir umferð. Dæmi um þetta er viðleitni meirihlutans til að leggja stein í götu Sundabrautar og andstaða við löngu tímabærar úrbætur á fjölförnum gatnamótum í borginni.

Í umferðarmálum þarf að reisa ný og nútímaleg umferðarmannvirki, sem auka umferðaröryggi og greiða fyrir umferð. Þá þarf að efla strætisvagnaþjónustu að nýju í Reykjavík eftir umfangsmikla þjónustuskerðingu vinstri meirihlutans á kjörtímabilinu.

Stóraukum lóðaframboð

Í húsnæðismálum vill Sjálfstæðisflokkurinn m.a. tryggja nægt framboð lóða fyrir fólk á öllum aldri, hvort sem það vill búa í eigin húsnæði eða vera á heilbrigðum leigumarkaði. Auka þarf þjónustu við eldri borgara og fjölga búsetukostum, t.d. í samstarfi við byggingarfélög þeirra.

Ábyrgðarleysi í fjármálum

Þrátt fyrir að skattheimta sé í hámarki á Reykjavíkurborg við alvarlegan fjárhagsvanda að stríða. Skuldir borgarinnar nema nú um 407 milljörðum króna og munu skv. áætlunum fara yfir 420 milljarða í árslok 2022. Stöðva þarf skuldasöfnunina og stórbæta reksturinn með sparnaði og hagræðingu.

Börnin eiga betra skilið

Skólamál borgarinnar eru í kreppu undir forystu Samfylkingarinnar. Ekki hefur verið staðið við margítrekuð loforð borgarstjóra um framboð leikskólarýma og lestrarkunnátta grunnskólabarna er óviðunadi. Vanhugsaðar breytingar meirihlutans í skólamálum hafa engum árangri skilað en valdið mikilli ólgu meðal foreldra og starfsmanna. Vegna vanrækslu á viðhaldi hefur mygla myndast í mörgum skólum og fjölmargir nemendur þurfa nú að sækja skóla utan heimahverfis vegna hennar.

Bæta þarf grunnskólamenntun, m.a. með því að notast við ný og mælanleg markmið og upplýsa foreldra sem best um námsframvindu barna sinna. Leita þarf nýrra leiða til að manna leikskólana og efla dagforeldrakerfið.

Ný forysta – nýjar lausnir

Eftir kosningar mun Dagur B. Eggertsson borgarstjóri láta einskis ófreistað við að halda völdum með hinum ýmsum smáflokkum. Nauðsynlegar breytingar á rekstri Reykjavíkurborgar verða hins vegar ekki gerðar undir stjórn Samfylkingar eða þeirra vinstri flokka, sem styðja hana: VG, Viðreisnar og Pírata.

Um leið og Framsóknarflokkurinn boðar breytingar, segist nýr oddviti hans jafnt geta unnið til vinstri sem hægri. Kjósendur Framsóknar vita því ekki í raun hvort þeir eru að kjósa breytingar eða vinstri meirihlutann áfram undir forystu núverandi borgarstjóra.

Það er fullreynt að stefna núverandi meirihlutaflokka leysir ekki þann vanda, sem Reykvíkingar standa frammi fyrir, hvort sem litið er til húsnæðismála, samgöngumála, skólamála, fjármála eða umhirðu í borginni.

Skýrir kostir á laugardaginn!

Þeir kjósendur, sem vilja raunverulegar breytingar í Reykjavík, standa frammi fyrir skýrum kostum í borgarstjórnarkosningunum 14. maí.

Annars vegar er hægt að kjósa áframhaldandi stöðnun undir stjórn Samfylkingarinnar og fylgiflokka hennar.

Hins vegar er hægt að kjósa raunverulegar breytingar með því að styðja Sjálfstæðisflokkinn, X-D.