Útkall F1!
'}}

Sjúkraþyrlu á vettvang

Í bráðatilfellum er talað um „gullnu stundina“, fyrstu klukkustundina eftir slys eða bráð veikindi sem munu skilja milli þess að hægt sé að bjarga lífi einstaklings eða koma í veg fyrir örorku. Gullna stundin markast ekki lengur af 60 mínútum eins og hún gerði áður en orðatiltækið hefur haldist í talmáli fagfólks á heilbrigðissviði og fengið nákvæmari útlistun með tímanum. Staðreyndin er sú að því fyrr sem sérhæfð meðferð við bráðatilfelli getur hafist því betri verða lífslíkur sjúklings og afleiðingar vægari til dæmis við kransæðastíflu, blæðingu í heila, alvarlegrar sýkingar eða fjöláverka. Sjúkraflutningur er oftast fyrsta viðkoma sjúklings í heilbrigðiskerfinu við bráðatilfelli. Sjúkraflutningar eru heilbrigðisþjónusta og ber heilbrigðisyfirvöldum skylda til að stýra því hvernig þeim er háttað. Ísland er eitt strjálbýlasta land veraldar með um 3,7 manns á hvern ferkílómeter landsins. Sérhæfð læknisþjónusta er oft á tíðum eingöngu veitt af LSH í Reykjavík og eru sjúkraflutningar því sérstaklega mikilvægir okkur landsbyggðarfólki. Í dag eru sjúkraflutningar með sjúkrabílum á höndum Sjúkratrygginga Íslands og hvert heilbrigðisumdæmi fyrir sig með samning um þá flutninga. Heilbrigðisráðuneytið er með samning við Mýflug um sjúkraflug með tvær flugvélar fyrir Vestfirði, Norðurland, Austurland og Vestmannaeyjar, NA-svæði svokallað. Dómsmálaráðuneytið hefur málefni LHG undir sínum höndum og sinnir LHG nauðsynlegum sjúkraflugum á SV-svæði og aðkallandi sjúkraflutningum í samvinnu við björgunaraðila á björgunarþyrlum sínum auk sjúkraflutninga á sjó innan efnahagslögsögu landsins.

Á Akureyri er miðstöð sjúkraflugs fyrir landið. Mýflug hefur sinnt sjúkraflugi fyrir Vestmannaeyjar frá árinu 2010 þegar föst viðvera sjúkraflugvélar í Eyjum var aflögð. Mýflugsmenn hafa sinnt starfi sínu með sóma og af mikilli fagmennsku en við þessa breytingu bættust,  vegna fjarlægðar sjúkraflugvélar, við 70 mínútur í tíma frá útkalli til þess er sjúklingur lendir í Reykjavík í forgangi F1 eða F2 (tvö hæstu viðbragðsstigin í sjúkraflutningi). Samkvæmt tölum fyrir sjúkraflug árið 2015 liðu að meðaltali 137 mínútur frá útkalli til þess er sjúklingur var kominn á áfangastað í forgangi F1 og F2 frá Eyjum. Þessi tími er langt út fyrir gullnu stundina fyrrnefndu þó svo læknir sé í einhverjum tilfellum með í för frá Akureyri. Brýnt er að bæta úr þessu hið fyrsta.

Lausnir í sjónmáli
Víðast hvar á landsbyggðinni hefur þjónusta spítala dalað undanfarin ár og það gildir einnig um Vestmannaeyjar. Skurðstofan lokaði í Eyjum árið 2013, fæðingarþjónusta er takmörkuð og leita þarf upp á land fyrir ýmsar meðferðir þó tækjabúnaður sé þegar til staðar í Eyjum. Að framansögðu er ljóst að brýnt er að spyrna við þeirri skerðingu sem hefur átt sér stað í heilbrigðismálum í Eyjum og landinu öllu. Vinna þarf í lausnum.  Á vefsvæði Stjórnarráðsins er hægt er að nálgast skýrslu eftir skýrslu unna fyrir Velferðaráðuneytið og síðar Heilbrigðisráðuneytið þar sem sérfræðingar og fagfólk hafa unnið gríðarlega vinnu og komið með skynsamar lausnir á vandamálum heilbrigðiskerfisins. Sú skýrsla sem vekur í dag mesta athygli og þykir vænlegust til árangurs til eflingar bráðaþjónustu úti á landi er skýrsla Viðars Magnússonar frá árinu 2017 um sjúkraþyrlur. Viðar Magnússon er svæfinga- og gjörgæslulæknir að mennt, yfirmaður bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa á Íslandi og umsjónarlæknir sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu. Hann hefur fjölþætta reynslu af bráðalækningum á vettvangi og innan sjúkrahúsa, hefur starfað á neyðarbílum Slökkviliðs Höfuðborgarsvæðisins, Landsspítala Háskólasjúkrahúss og einnig í Osló. Viðar hefur starfað sem læknir með þyrlusveitum í Bretlandi og Noregi og starfar í dag einnig á þyrlum LHG sem útkallslæknir. Viðar gegnir formennsku í Fagráði sjúkraflutninga. Umrædd skýrsla er því hafsjór af fróðleik. Mikil vinna var lögð í að koma umræddu verkefni á koppinn og náði það svo langt að vera samþykkt af ríkisstjórninni og fært í fjármögnunarferli sem tilraun til tveggja ára af þáverandi heilbrigðisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur. Í skjóli heimsfaraldurs var verkefnið lagt til hliðar.

Brettum upp ermarnar
Það er tími til kominn að dusta rykið af verkefninu og koma því í góðan farveg og greiða götu þess. Sjálfstæðisflokkurinn í Eyjum hefur ekki látið sitt eftir liggja og hafið vinnu við að samræma undirbúningsþætti og fengið ráðgjöf frá fagaðilum, innlendum sem og erlendum. Sjúkraþyrlur er að finna í svo til öllum vestrænum samfélögum og voru fyrst teknar í notkun í Evrópu upp úr 1970, nánar tiltekið í Þýskalandi. Í dag eru starfræktar yfir 80 sjúkraþyrlur um gjörvallt Þýskaland. En hvað skilur sjúkraþyrlur frá öðrum þyrlum? Sjúkraþyrla (e. HEMS – Helicopter Emergency Medical Service) er mönnuð lækni ásamt hjúkrunarfræðingi eða bráðatækni ásamt flugmanni og er útbúin sérstaklega til að veita bráðaaðstoð á vettvangi. Í raun má segja að sjúkraþyrlan flytji gjörgæsluna á slysstað.

Sjúkraþyrla er frábrugðin björgunarþyrlum LHG að því leyti að búnaður um borð er mjög ólíkur sem og mönnun. Búnaður sjúkraþyrlu er sérhæfður til að veita bráðaaðstoð auk þess sem þyrlurnar eru léttari, ódýrari í innkaupum og rekstri, hjóðlátari og áhafnaþörf minni en á björgunarþyrlum. Áhafnir sjúkraþyrla eru að jafnaði á staðarvakt með mjög skamman viðbragðstíma á meðan áhafnir LHG eru á bakvakt og mönnun síður hentug til að veita bráðaaðstoð. Stærð björgunarþyrla LHG, hávaði og mikið fráslag eru ókostir þegar kemur að lendingu á eða í nágrenni slysavettvangs eða spítala auk þess sem erfitt er að koma því við að slökkva á stórum mótorum þeirra og ræsa á ný. Minni þyrlur eiga auðveldara með að slökkva á mótorum við slíkar aðstæður og eru mun fljótari að koma þeim í gang. Björgunarþyrlur eru þó mun öflugri og betur búnar til að standa af sér rysjótt veðurfarið á Íslandi og munu því alltaf verða nauðsynlegur hluti af sjúkraflutningakerfinu. Stór hluti verkefna flugdeildar LHG eða um helmingur er vegna sjúkraflugs og nýtast þær því ekki á meðan þeim stendur til björgunar-, leitar- eða löggæslustarfa sem er meginhlutverk gæslunnar. Sjúkraþyrlur myndu því styrkja LHG til þess að sinna sínum lögbundnu störfum.

Æskilegt er að samið sé við reyndan aðila innan EES um rekstur sjúkraþyrlu, sérstaklega þegar verkefnið er hugsað til prufu og æskilegt er að leita í þekkingabrunn þessara sömu aðila sem er takmörkuð hér á landi. Danir nutu góðs af mikilli reynslu Norðmanna á þessu sviði en sjúkraþyrlur hafa verið í notkun í Noregi frá árinu 1979. Norðmenn komu að sjúkraþyrluverkefni Dana til að byrja með og sjá enn um rekstur fjögurra starfstöðva  þar í landi sem og rekstur þyrlanna.

Þyrlur og búnaður
Fyrir samningsútboð þarf að liggja fyrir hvaða þyrlutegund og búnaður hentar best og liggur beinast við að ákveða það í samráði við fagráð sjúkraflutninga, Félag bráðalækna og Svæfinga- og gjörgæslulæknafélag Íslands. Valið stendur milli þyrla sambærilegra við H135 og H145 frá Airbus. H135 er minni en H145 sem er kraftmeiri og rýmri að innan. H145 er betri kostur í öllu tilliti faglega en hefur þann eina ókost að vera dýrari í innkaupum og rekstri. Á móti hefur öflugri þyrla betri eiginleika með tilliti til veðurfars og möguleika á viðbótum t.d. er hægt að bæta við hana sigbúnaði sem getur stytt ferðatíma að sjúklingum á torfærum svæðum. Æskilegur búnaður þyrlunnar eru auk staðalbúnaðar vegna bráðaaðstoðar; nætursjónauki, blindflugshæfni og 4-ása sjálfstýring. Samkvæmt skýrslum norsku, sænsku og dönsku HEMS sveitanna er um þriðjungur allra sjúkraflutninga yfir nóttu og yrði sú tala líklega hærri hér á Íslandi þar sem dagurinn er að jafnaði skemmri yfir vetrartímann en hjá frændum okkar í Skandinavíu. Afísingabúnaður myndi hækka rekstrarkostnað mjög og þekkist varla erlendis í tilfelli sjúkraþyrla.

Flugrekandi
Í útboði um sjúkraþyrlu er æskilegt að gerð sé krafa um töluverða reynslu af rekstri sjúkraþyrlu enda í mörg horn að líta í þeim efnum. Kröfur til flugrekenda eru gríðarlegar og tekur að jafnaði 2-3 ár að uppfylla öll skilyrði fyrir slíkum rekstri. Flugrekendum ber m.a. að standa skil á viðhaldi, mönnun, þjálfun áhafna, öryggismenningu (e. Safety Management System) og fylgja eftir stífum reglugerðum tengdum flugrekstri. Fyrsta skrefið er stærst í þessu verkefni og af samlegðaráhrifum er skoðunarvert hvort hagkvæmara væri að hefja verkefnið á tveimur stöðum á landinu t.d. ein sjúkraþyrla í Vestmannaeyjum og önnur á Akureyri. Slíkt gæti lækkað kostnað á einingu töluvert en ekki þarf að deila um hagkvæmni slíkrar þyrlu sem getur borgað rekstur sinn upp á ársgrundvelli í einu til tveimur vel heppnuðum bráðaútköllum. Þjóðhagsleg hagkvæmni af því að bjarga mannslífi eða koma í veg fyrir örorku er metin í tugum og hundruðum milljóna króna, lífið er mikils virði og ætti að vera í forgrunni ákvarðana um öflugt heilbrigðiskerfi.

Staðsetning sjúkraþyrlu
Til að þyrlan nýtist sem best þarf hún að vera staðsett þannig að hún styðji við net sjúkraflutninga. Almennt er miðað við að sjúkrabílar henti best innan 50 km frá sjúkrahúsi en sjúkraþyrlan henti best í 50-250 km fjarlægð, flugvélar henta best þegar fjarlægðin er orðin meiri en 250 km. Æskilegt er að starfsstöð sjúkraþyrlu sé þannig að hún nái til allra helstu byggðakjarna og ferðamannastaða á tilteknum viðmiðunartíma t.d. 45 mínútum (viðmið norsku sjúkraþyrlanna, 15 mínútna viðbragðstími + 30 mínútna flug að hámarki). Fyrir verkefni um sjúkraþyrlu þykir suðvesturlandið heppilegast enda er þar mikill íbúafjöldi, fjöldi ferðamanna, stórar sumarhúsabyggðir en á sama tíma einnig töluvert dreifbýli sem myndi njóta góðs af þessari þjónustu. Æskilegt er að læknir og hjúkrunarfræðingur/bráðatæknir á starfsstöð hefðu aðgang að sérstökum útkallsbíl líkt og tíðkast víða erlendis. Þannig gætu þeir hafið bráðaviðbragð og undirbúið sjúkling í nærumhverfi þyrlunnar sem kæmi síðar á staðinn ef til sjúkraflutnings kæmi. Þarna myndi utanspítalaþjónusta efla til muna bráðaviðbragð í byggðarlagi líkt og í Vestmannaeyjum.

Nýting þyrlunnar verður einnig að vera sem best með tilliti til veðurfarslegra þátta. Eðli starfsins kallar á sjónflugsaðstæður í flestum tilfellum, sjúkraþyrlurnar yrðu þó útbúnar til blindflugs og skoða þarf hvort verkefnið verði mannað einum eða tveimur flugmönnum hverju sinni á staðarvakt svo hana yrði hægt að nýta til blindflugs og næturflugs.

Aðstaða fyrir sjúkraþyrlu
Bátur þarf bryggju eða ból og sjúkraþyrla þarf skýli. Skýlin sem eru að öllu jöfnu reist fyrir sjúkraþyrlur þurfa helst að vera hæf til að sinna lágmarksviðhaldi á vélunum. Þau verða einnig að vera svo búin að geta hýst áhafnir á meðan vaktatímabili stendur sem og aðstöðu fyrir starfsmenn í samræmi við staðla. Kostnaður við að reisa slíka byggingu var áætlaður um og yfir 200 milljónir króna árið 2017 og hefur sá kostnaður efalaust hækkað síðan þá. Fyrir slíka fjárfestingu þarf því að vanda valið vel við staðsetningu skýlisins en ráðast þarf í slíka framkvæmd sem fyrst. Bygging skýlisins er forsenda þess að geta hafið verkefnið á ársgrundvelli. Skoða má hvort hægt sé að nýta aðstöðu sem þegar er til staðar t.d. á Vestmannaeyjaflugvelli eða Bakkaflugvelli og ná þannig niður kostnaði, nóg er plássið.

Vestmannaeyjaflugvöllur er eini flugvöllurinn á Suðurlandi sem býður upp á flugupplýsinga-, veður- og vetrarþjónustu ásamt eldsneytisafgreiðslu allt austur að Höfn í Hornafirði. Flugvöllurinn er þjónustaður af ISAVIA og býður upp á þjónustu allan ársins hring. Vestmannaeyjar eru því raunhæf staðsetning til að hefja verkefni um sjúkraþyrlu með sem minnstum tilkostnaði. Í Vestmannaeyjum er einnig að finna eina eldsneytistankinn á öllu Suðvesturlandi þar sem hægt er að nálgast þotueldsneyti, JET-A1, sem þyrlurnar notast við. Tankurinn er 20.000 L og er þjónustaður af starfsmönnum ISAVIA sem eru á neyðarvakt allan sólarhringinn. Líklegt er þó að koma þurfi upp birgðatanki á tilraunasvæði þyrlunnar en gera má ráð fyrir að kostnaður við 10-20.000 L tank yrði um 15-20 milljónir króna samkvæmt upplýsingum frá Olíudreifingu ehf. Óumflýjanlegt verður að koma slíkum tanki upp á Suðvesturlandi vegna þessa verkefnis þar sem svæðið er mikið yfirferðar og þyrlurnar með takmarkað flugþol.

Veðurfar
Líkt og Eyjamenn þekkja þá eru vetur mjög harðir í Vestmannaeyjum og staðsetning flugvallarins í fjallasal í kringum 100 m hæð yfir sjávarmáli óheppileg í öllu tilliti veðurfarslega. Oft getur skyggni orðið lélegt, vindur sterkur og vindsveipir svo öflugir að hvorki er óhætt að lenda né taka á loft á vellinum. Misskilnings hefur gætt í þessari umræðu um að alltaf sé auðveldara að taka á loft en lenda í Eyjum. Það er að hluta til rétt með flugvélar, skyggni þarf að vera meira til lendingar en til flugtaks og vindmörk eru að jafnaði lítillega rýmri til flugtaks en lendingar. Með þyrlur gilda aftur á móti önnur lögmál, þær eru ekki jafn bundnar við flugvöllinn þegar kemur að lendingu og flugtaki. Hjá LHG tíðkast á þyrlum þeirra að lenda á Eiðinu eða nálægt Víkinni í Eyjum eftir aðstæðum hverju sinni, er það gert þegar erfitt eða ómögulegt er að lenda á flugvellinum eða taka á loft. Því getur það verið heilladrjúgt fyrir Eyjamenn að skoðað verði í samráði við fagaðila hvort staðsetning þyrlunnar utan flugvallar í Eyjum eða í nágrenni Eyja geti aukið nýtingu þyrlunnar fyrir allt svæðið auk þess að nýtast betur til sjúkraflutninga frá Eyjum en ef hún væri staðsett á Vestmannaeyjaflugvelli.

Starfsfólk
Mikill áhugi er á komu sjúkraþyrlu meðal fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Nokkur hópur fólks hefur til að mynda sótt námskeið á eigin kostnað til að öðlast réttindi til að starfa um borð í sjúkraþyrlu og því að nokkru leyti þegar tilbúinn til starfa. Slíkt námskeið er ekki gefins og framtakið aðdáunarvert en einnig til marks um stuðning og trú við verkefnið. Fullvíst er að slíkt verkefni laðar að sérhæft starfsfólk, hækkar menntunarstig og reynslu í heilbrigðiskerfinu. Þjálfunar- og vinnuferla úr starfssemi sjúkraþyrla væri hægt að yfirfæra á menntun og síþjálfun spítalaþjónustu sem myndi hafa mjög jákvæð áhrif á vinnustaðamenningu heilbrigðisþjónustunnar allrar. Fyrir slíku hefur lengi verið barist en í hagræðingaumhverfi síðustu áratuga hefur ekki verið pláss fyrir slíkt þó þekking, reynsla og áhugi séu til staðar.

Í áhöfn sjúkraþyrlu eru engir aukvisar, þar starfar einungis reynt og gríðarlega hæft starfsfólk í öllum stöðugildum. Um borð í sjúkraþyrlu eru 3-4 aðilar; bráðalæknir eða gjörgæslu- og svæfingalæknir, svæfingahjúkrunarfræðingur eða bráðatæknir og svo reyndur þyrluflugmaður. Til að geta flogið blindflug og næturflug þarf tvo flugmenn til en einnig er til sérstök staða aðstoðarmanns sem hefur grunnnám í þyrluflugi og bráðaaðstoð, myndi hann leysa af aðra stöðu flugmanns en einnig nýtast lækni þyrlunnar (Technical Crew HEMS). Æskilegt er að þjálfaðar verði 6-8 áhafnir á sjúkraþyrluna til að álagið verði ekki of mikið en samt nóg til að halda fólki í þjálfun fyrir hið sérhæfða starf.

Kostnaður og rekstur
Þyrlur eru ekki ódýrar í rekstri miðað við sjúkrabíla en margvíslegur ávinningur kemur á móti þeim kostnaði. Minni útgjöld færu til reksturs sjúkrabíla þar sem þyrlurnar myndu taka mörg útköll, sérstaklega þeim lengri og þannig létta á sívaxandi þörf á fjölgun sjúkrabíla. Tekjur eru nokkrar vegna sjúkraflutninga, árið 2015 var einn af hverjum sjö sjúkraflutningum á Suðurlandi til kominn vegna erlendra ferðamanna. Slíkur flutningur greiðist ýmist af einstaklingnum, sjúkratrygginum hans eða almennum sjúkratryggingum þess lands sem ferðamaðurinn kemur frá. Fjölþætt þjónusta þyrlunnar bætir viðbragð úti á landi og getur minnkað þörf á vakthafandi læknum á heilsugæslum í héruðum. Margt kemur því til á móti kostnaði við rekstur sjúkraþyrlunnar þó aldrei verði hægt að mæla virði hennar í björgun mannslífa og heilsu.

Að lokum
Sjálfstæðisflokkurinn í Eyjum hefur farið í mikla vinnu til að stuðla að því að ýta megi þessu mikilvæga verkefni úr vör. Það er okkur mikilvægt kjósandi góður að þú sýnir okkur stuðning í komandi sveitastjórnarkosningum. Með því munt þú aðstoða okkur við að koma þessu máli í gegn á sem skilvirkastan máta og vonandi tryggja Eyjamönnum bestu mögulegu bráðaaðstoð og skilvirkasta sjúkraflutning sem möguleiki er á.

Sveinn Hjalti Guðmundsson, þjálfunarflugstjóri/fyrrverandi flugstjóri í sjúkraflugi
Sæunn Magnúsdóttir, 6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins
Hannes Kristinn Sigurðsson, 10. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins
Vilhjálmur Árnason, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins
Guðrún Hafsteinsdóttir, alþingismaður og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi

Eyjafréttir 11. maí, 2022.