Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi.
Það er vel þess virði að skoða þau vinnubrögð borgarstjóra sem urðu að ágreiningi milli hans og innviðaráðherra í síðustu viku.
Samkomulag um flugvöll
Í nóvember 2019 gerðu borgarstjóri og innviðaráðherra með sér opinbert samkomulag um að borgaryfirvöld skertu hvorki rekstraröryggi né flugöryggi Reykjavíkurflugvallar á meðan nýr flugvöllur væri ekki kominn í notkun. Eftir undirritun samkomulagsins lét borgarstjóri engu að síður halda áfram að skipuleggja íbúðabyggð í Skerjafirði þótt fyrirséð væri að sú byggð myndi tefla á tæpasta vað með flugöryggi vallarins.
Óskiljanleg skipulagsáform
Þessi skipulagsáform eru nú orðin einhver þau umdeildustu í sögu borgarinnar. Þeim er ætlað að margfalda íbúðabyggð Skerjafjarðar, sunnan flugbrautar, án þess að gerðar verði viðeigandi ráðstafanir með umferð til og frá svæðinu. Skerfirðingar voru í engu hafðir með í ráðum og neitað um sómasamlega kynningu á þessum áformum. Auk þess hafa átta opinberar fagstofnanir gert alvarlegar athugasemdir við skipulagið, án þess að borgaryfirvöld hafi tekið tillit til þeirra. Í umsögn sinni áréttaði Samgöngustofa nauðsyn þess og skyldu að tryggja að flugöryggi við notkun flugvallarins skertist ekki og benti þar sérstaklega á tiltekin atriði sem uppfylla þarf samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum.
Isavia fékk hollensku loft- og geimferðastofnunina til að rannsaka áhrif nýrrar byggðar á vindafar á Reykjavíkurflugvelli. Niðurstöður þeirrar rannsóknar kveða m.a. á um að vinna þurfi sérstakt áhættumat vegna hinnar nýju byggðar. Það áhættumat hefur ekki verið unnið enn.
Einbeittur brotavilji
En borgarstjóri hefur ekki haft áhyggjur af áhættumati. Þvert á móti samþykkti borgarstjórn deiliskipulag Nýja Skerjafjarðar í apríl 2021. Í febrúar 2022 fékk borgarstjóri bréf frá innviðaráðuneyti þar sem óskað var eftir skýringum hans á því hvernig hann hygðist tryggja hvort tveggja, flugöryggi og rekstraröryggi vallarins, í ljósi þessara byggingaráforma. Farið var fram á svar innan tiltekinna tímamarka. Borgarstjóri fékk tvívegis frestun á að svara en á sama tíma, hinn 31. mars sl., lét hann samþykkja stækkun byggingarreits við Skeljanes og fjölgun íbúða á svæðinu um 80 talsins.
Ráðherra var nú ljóst að Dagur ætlaði ekki að standa við samkomulagið og lýsti því yfir að Reykjavíkurborg yrði að svo komnu máli ekki afhent það svæði innan flugvallarins sem til stóð. Viðbrögð borgarstjóra urðu þá þau, degi síðar, að leggja fram tillögu í borgarráði um úthlutun 4.965 fermetra lóðar og byggingarrétt fyrir allt að 140 íbúðir.
Þegar ágreiningurinn varð að frétt á Stöð 2 og fréttamaður spurði borgarstjóra hvort hann væri ekki að brjóta samkomulagið frá því 2019 segir borgarstjóri í fréttum Stöðvar 2: „Þarna þarf Isavia að fara í bara ákveðið áhættumat og hugsanlega mótvægisaðgerðir. En flugöryggi er í engu raskað.“
Þegar borgarstjóra var síðan bent á að þessar mótvægisaðgerðir þýddu að það þyrfti að loka flugvellinum þegar ákveðnar aðstæður kæmu upp og þar með skerða rekstraröryggið svaraði hann: „Það er væntanlega það sem hugsanlega kæmi út úr áhættumatinu.“
Með þessum viðbrögðum sínum viðurkennir borgarstjóri blátt áfram að íbúðabyggðin muni að öllum líkindum skerða rekstraröryggi vallarins. Hann hefur því allan tímann ætlað sér að brjóta það samkomulag sem hann gerði við innviðaráðherra um flugvöllinn.
Eitt helsta pólitíska markmið borgarstjórans er að koma Reykjavíkurflugvelli úr Vatnsmýrinni. Hann neitar borgarbúum um að kjósa um þetta álitamál þótt fjöldi skoðanakannana og 70 þúsund undirskriftir frá borgarbúum og landsmönnum gefi ótvírætt til kynna að þeir vilja hafa flugvöllum áfram í Vatnsmýri. Og hann sér heldur ekkert athugavert við það að gera samkomulag um flugvöll sem hann hefur aldrei ætlað að standa við. Slíkt háttalag er frágangssök.
Morgunblaðið, 09. maí, 2022.