Ásdís Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi:
Sveitarstjórnarkosningar eru að mörgu leyti ólíkar alþingiskosningum. Það á sér eðlilegar skýringar; málefni sveitarfélagsins snerta okkur með beinum hætti nær daglega. Þar fara börnin okkar í leikskóla og skóla, þar skiptir máli hvort verslanir og þjónustufyrirtæki séu til staðar og hvar þau eru staðsett, íþróttafélögin standa okkur nærri, menningin hefur áhrif á okkur, við sækjum útivistarsvæðin, það skiptir máli hvort og hvenær götur eru ruddar eða sópaðar og þannig mætti lengi telja.
Kjörnir fulltrúar í sveitarfélögum þurfa að sinna verkefnum sínum af heilum hug og með hagsmuni íbúa á öllum aldri að leiðarljósi um leið og þess er gætt að sveitarfélögin séu rekin með ábyrgum hætti. Við höfum orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að búa í góðu sveitarfélagi í Kópavogi, þar sem mikil uppbygging hefur átt sér stað og samhliða því hugað að frekari framförum og auknum lífsgæðum fyrir íbúa. Við sem veitum Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi forystu ætlum þó ekki að láta staðar numið, því það er mikilvægt að gera betur í dag en í gær og halda áfram að sækja fram.
Við höfum nú í aðdraganda kosninga birt lista yfir 100 loforð sem við leggjum í dóm kjósenda. Loforðin eru ábyrg og raunhæf, en forsenda þeirra er þó að Sjálfstæðisflokkurinn hafi umboð til að fylgja þeim eftir og að sveitarfélagið verði áfram rekið með ábyrgum hætti þannig að Kópavogsbær hafi burði til að auka enn við lífsgæði íbúa á öllum aldrei og veita framúrskarandi þjónustu.
Listi loforðanna verður áfram opinber eftir kosningar þannig að kjósendur geti fylgst með framgangi verkefna á kjörtímabilinu. Á honum er fjallað um skólamál og betri menntun, betri rekstur, betra skipulag fyrir hverfin okkar, samgöngumál, umhverfis- og loftslagsmál, framfarir í tækni og aukinni þjónustu, listir og menningu, atvinnumál og fleira.
Loforðin eiga það eitt sameiginlegt að þau eru til þess fallin að auka lífsgæði fólks á öllum aldri í Kópavogi. Eðlilega velta mörg því fyrir sér hvort eitthvað sé að marka öll þau kosningaloforð sem stjórnmálamenn setja fram í aðdraganda kosninga. Það eru eðlilegar vangaveltur, enda er enginn skortur á loforðum sem sett eru fram þótt þau séu misjafnlega raunhæf. Okkar loforð eru raunhæf, vel ígrunduð og við ætlum að standa við þau. Kjósendur geta fylgst með allt kjörtímabilið og haldið okkur þannig við efnið. Við ætlum að tryggja að framtíðin verði í Kópavogi.
Nánari upplýsingar um loforðin má finna hér.
Greinin birtist fyrst í morgunblaðinu, 7. maí 2022.