Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, 2. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Mygla hefur alltaf fylgt manninum en aukin fagþekking hefur dregið úr fjölda atvika þar sem alvarleg mygla fær að grassera. Því er það ámælisvert að skólahúsnæði borgarinnar sé myglandi í sífellu og alltaf heyri maður sömu söguna af viðbrögðum borgarinnar gagnvart foreldrum og starfsfólki.
Í kjölfar fráleitra vinnubragða borgarinnar í samskiptum og upplýsingagjöf til foreldra og starfsfólk í Fossvogsskólamálinu fylgdi hinn klassíski loforðaflaumur borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna og Viðreisnar um betrumbætur. Nú hafa samtals 15 tilfelli hættulegrar myglu í grunn- og leikskólum borgarinnar komið upp á kjörtímabilinu og lítið bólar á umbótum.
Skólarnir eiga það flestir sameiginlegt að ákall skóla- og leikskólastjórnenda um bætt viðhald mætti daufum eyrum í áraraðir og síðar meir óskir þeirra um víðtækari sýnatökur í kjölfar gruns um myglu. Sé grunur um eða staðfesting á myglu hef ég heyrt að stjórnendum sé sagt að smætta málið þar til borginni hentar að taka ákvörðun þó veikindi meðal starfsfólks og barna geti versnað á meðan, ellegar falli þeir úr náð hjá borginni. Leikskólarnir Furuskógur og Kvistaborg eru nýleg dæmi um óljósa upplýsingagjöf til foreldra og starfsfólks og að svartar skýrslur liggi hjá borginni í marga mánuði áður en fólki er gert viðvart. Enn er starfsfólk borgarinnar bendandi á hvert annað eða aðkeypta sérfræðinga, berandi fyrir sig þekkingarleysi eða skorti á alþjóðlegum og innlendum upplýsingum um viðmið eða áhrif myglu sem einföld netleit afsannar þegar starfsfólki skólanna og foreldrar leita svara. Hér ber meirihlutinn í borgarstjórn ábyrgð, því vegna óstjórnar þeirra skortir starfsfólk borgarinnar réttu stefnuna og verkfærin til að bregðast almennilega við. Það tekur ekki langan tíma að gera heildstæðan verkferil um viðbrögð og upplýsingamiðlun í kjölfar gruns og staðfestingu á myglu. Það að slíkt liggi ekki fyrir kemur upp um viðhorf Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna og Viðreisnar gagnvart þessum vanda, því þau ákveða línuna sem starfsfólk borgarinnar fylgir gagnvart skólunum og foreldrum.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu, 3. maí 2022.