Diljá Mist Einarsdóttir, alþingismaður:
Á dögunum óskaði ég eftir á Alþingi afstöðu forsætisráðherra fyrir hönd íslenskra stjórnvalda til aðildarumsóknar Finna og Svía, komi til þess að þjóðirnar sæki um aðild að Atlantshafsbandalaginu. Það var ánægjulegt að fá staðfestingu á því að íslensk stjórnvöld myndu styðja slíka umsókn, en bæði forsætis- og utanríkisráðherra höfðu haldið þeim sjónarmiðum á lofti í fjölmiðlum. Nú sem aldrei fyrr er nefnilega þörf á fullum stuðningi og samstöðu vestrænna lýðræðisríkja. Ekki bara í orði heldur líka á borði.
Það voru því sár vonbrigði að lesa fréttaflutning af því að sumar Evrópusambandsþjóðir hefðu notað undantekningu sem sett var í viðskiptaþvinganir ESB til þess að selja Rússum vopn, þrátt fyrir bannið sem var komið á eftir innlimun Rússlands á Krímskaga. Þar fóru öflugustu forysturíkin, Þýskaland og Frakkland, fremst í flokki.
Á sama tíma og forystumenn í Evrópu juku við viðskipta- og hagsmunatengsl við rússnesk stjórnvöld og eru ábyrgir fyrir því að álfan er háð rússneskri orku sjá leiðtogaríki ESB Rússum fyrir hergögnum. Svo ræða menn það hér af fullri alvöru að ganga í ESB vegna öryggishagsmuna Íslands!
Við höfum sjálf rekið okkur á skeytingarleysi Evrópusambandsins. Það var ekki fyrir mikilli samstöðu að fara með okkur Íslendingum þegar við leituðum til þeirra eftir að við urðum sérstaklega fyrir barðinu á viðskiptabanni Rússlands eftir innlimun Krímskagans.
Vestrænar þjóðir og Úkraínumenn munu ekki sætta sig við annað en fulla samstöðu og sameiginlegar fórnir til þess að verja sameiginleg gildi okkar: frelsi, mannréttindi og lýðræði.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, 30. apríl 2022.