Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins var gestur á Sprengisandi í morgun. Í þættinum, sem hlusta má á hér, fór Bjarni yfir stóru myndina varðandi Íslandsbankasöluna. Þar má fyrst nefna að ábati ríkissjóðs af sölunni hingað til nemur 108 milljörðum, en ríkið á enn 42,5% hlut. Verðmat bankans er hátt í alþjóðlegum samanburði og verðmæti hlutar ríkisins hefur aukist um tugmilljarða eftir vel heppnaða skráningu á markað síðasta sumar.
Bjarni leiðrétti jafnframt margar þær rangfærslur og gífuryrði sem stjórnarandstaðan hefur fleygt fram undanfarið og hafa að miklu leyti verið fluttar gagnrýnislaust. Hann benti á að röksemdafærsla stjórnarandstöðunnar er komin í hring. Fyrst var sagt að kaupendur hefðu verið handvaldir. Þegar það hafði verið hrakið þá sögðu stjórnarandstæðingar skyndilega að fjármálaráðherra hefði með réttu átt að fara yfir listann og handvelja kaupendur. Bjarni benti á að þetta stæðist enga skoðun, eins og hann hafði raunar rakið áður og lesa má hér:
Bjarni benti á að það væri rangt að meirihluti fjárfesta í útboðinu hefði selt bréf sín með miklum hagnaði. Þann fréttaflutning hefði Bankasýsla ríkisins leiðrétt fyrir páska. Hið rétta er að meirihluti kaupenda hafði haldið sínum hlut og bætt við sig hlutum, en hluthöfum hafði þá fjölgað um 125 frá útboðsdegi. Um það má lesa hér í frétt bankasýslunnar.
Í viðtalinu á Sprengisandi benti Bjarni á að flökkusaga sem gengið hefur á Facebook og fjölmiðlar hafi sagt frá gagnrýnislaust, stæðist tæplega skoðun. Í sögunni er fullyrt að maður nokkur hafi keypt bréf í útboðinu og selt „við fyrsta hanagal“ morguninn eftir með miklum hagnaði. Hið rétta er að seld bréf voru ekki afhent kaupendum fyrr en viðskiptin voru gerð upp sex dögum síðar. Umræddur maður hafði því engin bréf í höndum til að selja við fyrsta hanagal. Í færslunni er sömuleiðis fullyrt að umræddur maður hafi selt á genginu 127, en gengi bréfanna var hvergi nálægt því daginn eftir útboðið.
Að auki má nefna nokkrar af fjölmörgum staðreyndum um málið. Eigendur hluta í bankanum eru yfir 15 þúsund, en stærstu hluthafarnir, utan ríkissjóðs, eru lífeyrissjóðir og aðrir öflugir langtímafjárfestar. Fjórtán stærstu hluthafarnir eiga alls 77% bankans. Fimm stærstu hluthafarnir eru ríkissjóður Íslands, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Gildi, Capital Group og Lífeyrissjóður verzlunarmanna, eins og sjá má á lista bankans yfir stærstu hluthafa.